Yndislegur en erfiður dagur

margret GudnadottirÍ dag bar ég móður mína til grafar. Útförin var gerð frá kirkjunni okkar, Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Fjölmargir fallegir kransar, blóm og skreytingar settu kirkjuna í hátíðarbúning sem hæfði mömmu. Kirkjan var troðfull og ennfremur var troðfullt í safnaðarheimilinu þar sem gestir fylgdust með á sjónvarpsskjá. Guðmundur Sigurðsson organisti og Hjörleifur Valsson fiðluleikari, tveir yndislegir menn og frábærir tónlistarmenn léku ljúf lög fyrir athöfnina og ég gat ekki annað en brosað og hálf dillað mér með. Ég vissi að mömmu hefði líkað lögin vel og ég sá hana fyrir mér dansandi vals og tangó eftir þessum ljúfu lögum. Ég man eftir Ramóna og Ég er kominn heim, lög sem mamma hefði verið ánægð með.

Sjálf athöfnin hófst með forspili, Cavatini úr The Deer hunter, geysilega fallegt lag sem ég hafði bara heyrt spilað á gítar, en þeir félagar fóru afskaplega fallega með lagið.

Prestur við athöfnina var góður vinur okkar Einar Eyjólfsson sem hefur einstakt lag á að gera svona athafnir eðlilegar og fallegar. Fólk var kvatt til að taka undir í söng eins og mamma hefði viljað og mörgum fannst það svo gott að geta sungið með. Það er reyndar með ólíkindum að almennt skuli ekki sungið með í útförum. Mér finnst ég ekki vera þátttakandi nema ég fái að syngja með. Fyrsta lagið var sálmur sem mikið var sunginn í sveitinni, Ævibraut vor endar senn sem að jafnaði er sungið nokkuð hressilega af miklum krafti. Nú var það í spariútgáfu, mjög fallegt og ljúft að syngja með. Ég verð þó að viðurkenna að röddin brást nokkrum sinnum, tilfinningarnar streymdu fram.

Söngurinn var fallegur, lögin voru falleg og ég var óskaplega ánægður með athöfnina. Vissulega hefðum við viljað koma öllum fyrir í kirkjunni en það er ekki allt fengið. Ég hefði hvergi annars staðar viljað vera og leyfi mér bara að vera eigingjarn, mér leið óskaplega vel, umfaðmaður í þessari fallegu kirkju, hvað gat maður beðið um betra? Minningarorð sr. Einars voru óskaplega ljúf og beint áfram. Auðvitað höfðum við ljáð honum ýmsar staðreyndir en Einar þekkti mömmu og lýsti henni bæði vel og fallega. Ég gat brosað í hjarta mínu í minningum um undursamlega móður en þegar hann minntist á dansinn okkar mömmu, við rúmstokkinn, hálfum öðru sólarhring áður en hún dó, fannst mér allt ætla að bresta, tárin flæddu og ég var að því kominn að bresta í alvöru grát. Svo ljúfsár var sú minning. Mamma vildu oft setjast upp í rúminu, virtist líða betur svo. Einnig vildi hún oft setja fæturna út fyrir rúmstokkinn og eintaka sinnum stíga niður á gólfið. Þetta gerði hún þarna þegar ljóst var orðið að ekkert var hægt að gera annað en að reyna að láta henni líða sem best. Þarna stóð hún í faðmi mér og ég spurði hana hvort hún vildi ekki bara dansa, hvort við ættum ekki bara að dansa vals og svaraði hún þá, sem vart hafði mælt orð af vörum lengi, já, já og ég fann veikar hreyfingar hennar þar sem hún vaggaði sér aðeins til hliðar. Léttleikinn var enn til staðar þó aðeins væri biðin ein eftir.

Eftir minningarorðin söng hún Maríanna frænka (Másdóttir) Faðir vorið og gerði það dásamlega eins og við var að búast. Mér finnst reyndar ekki að það eigi að vera að gera faðir vorið að söng, kannski er það óþarfa viðkvæmni í mér, en söngurinn var fallegur og mömmu fannst óskaplega fallegt að hlýða á Maríönnu syngja þetta lag við jarðarför Hrefnu mágkonu sinnar fyrir skömmu.

Barnabörnin báru blóm og kransa, undursamlegur hópur og tengdabörn og tengdabörn okkar systkina báru kistuna úr kirkju og við systkinin, og þrjú barnabörn báru kistuna síðustu metrana í kirkjugarðinum þar sem mamma hvílir nú við hlið pabba sem dó fyrir 9 árum síðan.

Gríðarlegur fjöldi kom í erfidrykkjuna þar sem hann Ottó hafði ásamt sínu dekkað fallega upp borð og bauð upp á dýrindis kökur og snittur. Ég hafði tekið saman myndir af mömmu og við sýndum þær á stórum tölvuskjá. Myndirnar voru allt frá því mamma var barn þar til nú fyrir nokkrum vikum síðan. Hafði fólk greinilega mjög gaman af að skoða þær. Þó við erfiðar aðstæður væri var mjög gaman að hitta alla ættingjana, vini og kunningja sem maður sér allt of sjaldan. Þótti mér óskaplega vænt um að hitta allt þetta fólk og gott að vita af öllu þessu fólki sem átti góðar minningar um mömmu sem nú var farin frá okkur.

Minningarnar eru allt það sem við eigum eftir en þær eru líka margar og ljúfar. Elsku mamma, hvíl þú í Guðs friði. Hafðu eilífa þökk fyrir allt sem þú hefur veitt okkur. Minning þín mun aldrei deyja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Guðni.

Þökk fyrir að fá að lesa allan þann kærleik sem birtist í þessum pistli.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.11.2008 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband