Færsluflokkur: Ferðalög
21.3.2008 | 19:59
Lambafellsgjá og Bláa lónið
Í dag var farin hefðbundin ferð í Bláa lónið eins og við höfum gert með Elínu systur og fjölskyldu. Leiðin þangað hefur ekki alltaf verið sú saman og stundum hefur verið farinn langur vegur áður en lúnir fætur eru hitaðir upp í Bláa lóninu.
Í ár fórum við eftir grófum veginum að Höskuldarvöllum þar sem Trölladyngjan gnæfir yfir í öllu sínu veldi. Þó Keilir hafi freistað þá var ekki gengið á hann núna því Lambafellsgjáin var takmarkið. Þangað hafði enginn okkar komið áður. Við lögðum bílunum við Eldborgina, sem að sjálfsögðu er búið að stórskemma með efnistöku. Þar við er enn hiti og fannst krökkunum sérstaklega gaman að finna hitann rétt framan við bílinn á "bílastæðinu". Þaðan var gengið norð-austan við Eldborgina (krakkarnir hlupu að sjálfsögðu upp á hana) og eftir slóða í norður að Lambafelli og farið vestur og norður fyrir það þar sem gjáin blasir við. Reyndar nefnir Ómar Smári, vinum minn þetta klof, Lambafellsklof en glæsilegt er það með aðeins nokkra metra á milli hamraveggja. Við fórum upp gjána á hörðum snjó sem sums staðar var svolítið háll en stórfættur göngumaður sem þar hafði farið einhverjum dögum fyrr gerði okkur þó auðveldara fyrir. Upp komumst við og af Lambafellinu er stórkostlegt útsýni. Hiti er á vestanverðu Lambafellinu, litlu strákunum til mikillar ánægju.
Sjá upplýsingar um svæðið á Ferlir.is
Áfram var haldið eftir malarveginum að Reykjanesbraut og inn á Grindavíkurafleggjara. Þar var svo beygt til vinstri að Snorrastaðatjörnum, löng leið á leiðinlegum vegi og svekkjandi því maður ekur alveg að Reykjanesbrautinni þar sem áður var vegtenging. En við Snorrastaðatjarnir var fallegt, há tré undir hamraveggnum og borð og bekkir sem hægt var að nota sem við nýttum okkur að sjálfsögðu. Eftir dágóða stund þar var haldið í Bláa lónið - notaleg stund og ekki meira um það.
Myndir koma síðar
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)