Hugvekja flutt í skátamessu á sumardaginn fyrsta í Hafnarfjaðarkirkju

Kæru skátar og aðrir kirkjugestir: Gleðilegt sumar!

Það er alltaf gaman að fylgjast með því hvernig dagurinn lengist á vorin. Núna tökum við svo vel eftir því, ekki síst ef við höfum verið að fylgjast með eldgosunum á vefnum úr vefmyndavélunum. Svona æsir birtan vorið í okkur og við byrjum að hugsa um hvað við ætlum að gera í sumar.

En tíminn líður hratt og fyrr en varir er komið haust. Þá hugsum við til baka um allt það sem við ætluðum að gera í sumar en náðum ekki að gera. Við megum ekki gleyma að sumarið er aðeins lítill hluti af árinu. Það er reyndar svo að í lífi okkar megum við ekki lifa í framtíðinni eða þátíðinni. Þó við þurfum alltaf að undirbúa okkur fyrir það sem ókomið er og læra af tímanum sem liðinn er, er svo mikilvægt að lifa í nútíðinni.

Við þurfum alltaf að lifa í sátt við það sem við höfum. Hamingja okkar byggist ekki á því sem við fáum síðar, heldur byggist hún á viðhorfum okkar. Sá sem allt á er ekki endilega hamingjusamur og sá sem ekkert á þarf ekki endilega að vera óhamingjusamur. Það byggist á okkar eigin huga hvort við séum sátt við það sem við höfum og það sem við fáum.

En það er ekki auðvelt að stjórna eigin huga og ég vildi óska að ég gæti alltaf verið sáttur við það sem ég hef. Þó finnst mér ég hafi lært með tímanum að vera þakklátur fyrir það sem ég á enda er ég ríkur maður. Við hjónin eigum 6 syni og eina sonardóttur að auki. Hvað er hægt að biðja um meira?

En hér stend ég sem ritstjóri Fjarðarpóstins og hef atvinnu af því að hafa skoðun og að miðla skoðunum annarra til bæjarbúa. Frá því ég, fyrir tæpum 9 árum, tók við starfi ritstjóra Fjarðarpóstins hef ég skrifað yfir 400 leiðara þar sem ég set fram skoðanir mínar á ýmsum málum. Ég veit ekki hvort þið lesið einhverja af þessum leiðurum en ég er alltaf jafn hissa á því hversu margir lesa leiðarana og ekki síður hversu margir hafa skoðun á því sem þar stendur. Þessir leiðarar eru allt öðruvísi og skorinortari en þeir leiðarar sem ég skrifaði sem ritstjóri Skátablaðsins í 10 ár. Í leiðurunum reyni ég að vekja fólk til umhugsunar um ýmis málefni og verð að viðurkenna að stundum er ég hvassyrtari en ástæða er til – til þess eins að ná athygli. Sumir taka gagnrýni sem finna má í leiðurunum illa og sumir lesa leiðarana með öðrum gleraugum en ég nota sjálfur við skriftir.
Gagnrýni er eðlileg og er henni ætlað að vekja athygli á málefnum og má líka kalla tillögur til endurbóta. Reyndar er ekki alltaf að finna tillögur í gagnrýni, stundum er kannski bara verið að vekja athygli á málum sem betur mætti fara.

Ég öfunda reyndar alltaf þá sem eru duglegir að hrósa, en það er hæfileiki sem sumir eiga meira af en aðrir og ég veit að þið hafið öll fundið fyrir því að hrós sem við fáum er okkur mikil hvatning og miklu áhrifameira en gagnrýni sem jafnvel er sett fram af mestu vinsemd.

En nóg um það, ég ætla ekki að fara að flytja ykkur leiðara úr Fjarðarpóstinum.

Í ár eru 45 ár síðan ég fór á minn fyrsta skátafund. Já, ég er búinn að vera skáti í 45 ár og er rosalega stoltur af því. Skólafélagi minn fékk mig með sér á ylfingafund í gamla skátaheimilinu sem stóð við Hraunbrún. Það hús, sem áður hafði staðið niðri á Vesturgötu, er nú sennilega þakið ösku því það var flutt fyrir nokkrum árum austur á Seljavelli undir Eyjafjöllum. En það er önnur saga.

Skátastarfið hefur gefið mér gríðarlega mikið. Þar lærði ég samvinnu, að taka ábyrgð, að bjarga mér og þar lærði ég að það er skemmtilegt að hjálpa öðrum.

Í skátastarfinu eignaðist ég marga vini og konuna mína fann ég í skátunum. Svo ekki get ég kvartað. En þó svo skátastarfið sé fyrir börn og ungt fólk hættir maður aldrei að vera skáti. Karl Gústaf Svíakonungur gerðist ungur skáti en lætur konungdóminn ekki hindra sig í að sofa í tjaldi á skátamóti. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands var skáti á Ísafirði og síðar í Reykjavík þó ég viti ekki til þess að hann skríði á fjórum fótum inni í skátatjaldi. Lúðvík Geirsson bæjarstjóri var skáti í Hraunbúum og Guðbjartur Hannesson sem var forseti Alþingis á síðasta ári er öflugur skáti á Akranesi. Fjölmargir bæjarfulltrúa okkar voru í skátastarfi og ég vil fullyrða að það að starfa sem skáti er gríðarlega gott veganesti fyrir lífið og reyndar vil ég ganga svo langt að segja að skátastarf sé sjálfstæður lífsstíll.

Þess vegna fyllist ég stolti að fylgjast með skátastarfi og horfa á ykkur ungu skátana sem eigið framtíðina fyrir ykkur. Gleymið ekki, þó þið hverfið til annarra starfa, grunngildum skátastarfsins, að vera viðbúinn og að hjálpa öðrum. Skátalögin og skátaheitið geta verið leiðarljós ykkar alla ævi.

Hérna erum við í fallegri nýuppgerðri Hafnarfjarðarkirkju sem aldrei var kölluð annað en Þjóðkirkjan þegar ég var lítill. Kirkjan er húsið sem við erum í en kirkjan er líka samfélag fólks í trú á Jésú Krist sem frelsara okkar og við hann er kristin kirkja kennd. Grunngildi kirkjunnar er ekki ósvipuð og í skátastarfi, náungakærleikurinn. Þó svo skátastarfið sé byggt á kristnum grunni er skátastarfið opið öllum, óháð þjóðerni, litarhætti eða trúarbrögðum. Ungir skátar sem sótt hafa heimsmót skáta hafa upplifað að skátar frá stríðandi þjóðum starfa saman í bróðerni. Þeir hafa upplifað að skátar með ólíka trú koma saman á trúarlegum samkomum. Bakgrunnur fólks skiptir engu í skátastarfi og skátabúningnum var ætlað að hindra að fólk dæmdi hvert annað af fötunum sem það klæddist.

Hér í þessari kirkju eru tvö ný glæsileg pípuorgel en tónlist er mikilvægur þáttur í kirkjustarfi um allan heim. Tónlistin og söngur er líka snar þáttur í skátastarfi og skátar eru þekktir fyrir að syngja hvar sem er og af mikilli gleði. Eins og sálmarnir eru skátasöngvarnir uppfullir af boðskap og söngvarnir eru fjölbreyttir frá hátíðlegum hugljúfum söngvum til mikilla gleði- og grínsöngva. En í skátastarfi syngja allir og af gleði og misjöfn sönggeta er ekki látin trufla.

Ef allt virðist vesen og vafstur
og deyfðin að drepa mig er.
Ég dríf mig í hvelli austur,
á Úlfljótsvatn flýti ég mér.
Þar lífið er dýrlegur draumur
svo dæmalaust yndislegt er
í hjarta gleði og glaumur
og svo bjart yfir sálinni í mér.

Svo tjalda ég mínu tjaldi og tylli mér lyngið í.
Hvað í ósköpunum ætli því valdi
að ég velji að koma á ný?
Skyldi það vera landið?
Lækir, hólar og fjöll?
Er loftið lævi blandið?
Búa hér álfar og tröll?

Með brosi ég bæta vil heiminn,
með brosi ég býð góðan dag.
Já, brostu og vertu ekki feiminn
með brosi allt kemst í lag.
Á Úlfljótsvatn komum við saman
með brosi við reisum vor tjöld.
Gleði, glaumur og gaman
og sungið hvert einasta kvöld.

Þetta er einn af uppáhalds skátasöngvunum mínum, en hann er eftir Guðmund Pálsson og Halldór Torfason en þeir eru margir fleiri sem ég held mikið upp á.

Hörður Zóphaníasson er hirðskáld hafnfirskra skáta og hann kemst oft skemmtilega að orði. Einu sinni samdi hann:

Vormót í Krýsuvík, æ, æ og ó,
aldrei í rigningu festir þar snjó.

Segir þetta ekki eitthvað um jákvæðni en eins og margir vita hafa Vormótin Hraunbúa í Krýsuvík verið landsþekkt fyrir rigningu.

Mér finnst miður að fólk syngur minna í kirkju en áður og hvet ég ykkur öll til að taka vel og hátt undir í söngnum því við eigum alltaf að reyna að vera þátttakendur en ekki áhorfendur. Þið skiljið þá kannski af hverju það eru engir áhorfendabekkir í skátastarfi! Í skátastarfi eru allir með!

---

Hafnarfjörður er samfélag okkar Hafnfirðinga. Hafnarfjörður er eins og við viljum að hann sé. Ef við tökum ekki þátt í viðburðum í bænum verður bærinn ekki lifandi. Ef við brosum ekki til hvers annars á götum úti verður þetta ekki gleðilegur bær. Ef við göngum ekki snyrtilega um og tínum ekki upp drasl sem á vegi okkar er, verður þetta ekki snyrtilegur bær. Ef við brjótum reglur og gerum aðeins það sem okkur sýnist verður þetta ekki vænlegur bær að búa í.

Ágætu Hafnfirðingar, við munum brátt ganga úr kirkju og í skrúðgöngu um götur bæjarins. Hafið í huga hvað þið getið gert fyrir bæjarfélagið, ekki hvað bæjarfélagið geti gert fyrir ykkur. Við erum bæjarfélagið, látum enga skemma það.

Gangið á Guðs vegum. - Verið viðbúin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband