Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur!

Nú er nýtt ár gengið í garð. Allir frídagarnir sem ég ætlaði að nýta svo vel fóru í annað en ég ætlaði og kannski í miklu betra, bara letilega tilvist í návist fjölskyldunnar. Svona fara sumarfríin líka en ég hætti aldrei að gera áætlanir. Reyndar er frúin enn duglegri við að gera áætlanir um afrek mín í sumarfríinu enda lifir húnn enn í sannfæringu að ég sé sá sem hún sá fyrir sér þegar við giftumst fyrir nú nær 35 árum síðan. Mér eru áætluð störf til um 100 daga í þessu 4 vikna fríi og er þá ekki talað um ferðalögin sem við eigum að leggjast í. En sem betur fer er ekkert kvartað undan skorti á afrekum og tröllatrúin á afrekum mínum birtist alltaf að ári liðnu. Því er ekki að undra að ég hef svo sem aldrei sett mér háleit markmið í byrjun árs og reynsla mín í síðustu dellunni, hlaupadellunni, hefur frekar sannað að ég geri það sem ég ætla mér ekki að gera. Því hefur árangurinn verið betri en ætla mátti.

Laugarvatn

Í ár liggur margt fyrir og fremst í röðinni er efling á starfi eldri skáta í Hafnarfirði og stofnun nýs skátagildis í febrúar auk þess að fagna 50 ára afmæli St. Georgsgildisins í Hafnarfirði. Gangi það eftir verð ég rórri á hlaupum, því ég þarf fyrir haustið að vera búinn að geta hlaupið heilt maraþon 3 mínútum og 4 sekúndum hraðar en ég gerði á síðasta ári. Markmið mitt er því kannski ekki háleitt um 18,4 sekúndna bæting á hverjum mánuði til haustsins.

Ég ætla líka að slípa parketið og olíubera, smíða arinn, mála stofuna, klæða undir svalirnar, setja tröppur í garðinn, smíða ruslatunnugeymslu, smíða handrið, mála hluta af húsinu, skipta um tímareim í bílnum og eflaust eitthvað fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu. Ég þarf að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur af því að hafa ekki eitthvað að gera en ég veit líka að næsta ár kemur þó ég geri ekkert af þessu.

Mér líkar því alltaf vel skátaheitið sem er mér mjög heilagt: 

 

"Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess,
- að gera skyldu mína við guð og ættjörðina,
- að hjálpa öðrum
- og að halda skátalögin."

 Því er markmið mitt í byrjun ársins: "Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur." 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband