3.4.2007 | 15:03
Blettaskipulag og háhýsi
Heildstæð stefna er vinsælt hugtak meðal stjórnmálamanna ekki síst hér í Hafnarfirði. Því miður virðist þetta að mestu vera bara hugtak því oft finnst manni að vanti framtíðarsýn fyrir Hafnarfjörð. Enn á ný er farið að blettaskipuleggja miðbæinn. Nú á að hverfa frá gildandi skipulagi sem gerir ráð fyrir 4 hæða húsi þar sem Kaupfélagshúsið stóð áður við Strandgötuna. Þar á nú að koma 3 hæða hús út við Strandgötuna en það á síðan að skaga 10 hæðir upp með tveimur turnum og 46 íbúðum.
Hver hefur markað þessa stefnu? Af hverju er deiliskipulagið eins og það er? Það er mikill munur á 4 hæðum og 10 hæðum. Reyndar vildi verktakinn byggja 12 hæðir og kynnti samanburðinn við 10 hæðirnar, svo þetta liti nú vel út - lægra en eitthvað annað - sniðugt!? Skuggavarp og ekki síst vindstrengir sem myndast gætu við slíkt háhýsi var slíkt að ákveðið var að reyna við 10 hæðir. Samt sem áður þarf mótvægisaðgerðir til að hindra að hættuástand skapist ekki í miklu roki.
Á forstigskynningarfundi um málið var m.a. íbúi í Gunnarssundinu. Lítið má hann sín gegn gapandi risanum sem lokar hreinlega fyrir Gunnarssundið - og stelur af þeim sólinni.
Af hverju þurfum við að vera að rífast um hæð á einu húsi? Á ramminn ekki að vera nógu skýr? Margoft hef ég hvatt bæjarfulltrúa hér í bæ að setja af stað hugmyndasamkeppni um framtíðarútlit miðbæjarins. Þá fengist örugglega spennandi hugmyndir sem mætti þróa áfram og fá nokkuð nákvæma áætlun til að vinna eftir. Það fæst líf í miðbæinn með öðru en háhýsum. Látum ekki græðgina hlaupa með okkur í gönur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.