Nafnaruglingur

Það lýsti mikilli hugmyndafátækt þegar þá ný verslunarmiðstöð í miðbæ Hafnarfjarðar var nefnd Miðbær. Var þá fólk ekki í nokkrum vafa ef einhver sagðist vera að fara niður í Miðbæ, eða hvað? Stóri stafurinn heyrist að sjálfsögðu ekki og því enginn munur á miðbæ og miðbæ. Eiginnöfn fá sjaldnast fleirtölumerkingu og þegar fólk sagðist hafa verið í miðbænum fór ekki á milli mála hvar fólk var. En þetta virðist vera breytt tíð. 

Ýmsar ástæður urðu til þess að nafni verslunarmiðstöðvarinnar var breytt og var þesi nafnaruglingur ein ástæðan. En það var farið úr öskunni í eldinn og nafnið Fjörður var fyrir valinu. Lengi hafði þesi stytting verið notuð fyrir Hafnarfjörð og Reykvíkingar sögðust gjarnan vera að fara suður í Fjörð. Þá var talað um fólkið í Firðinum sem síðar varð nafn á ljósmyndabókum Árna Gunnlaugssonar.

Ekki hjálpar svo þegar í auglýsingum verslunarmiðstöðvarinnar er talað um Fjörðinn þótt nafnið sé eintöluorð. Þetta hafa margir svo apað eftir, nú síðast í útvarpsþætti Hjálmars Sveinssonar á Rás 1 í morgun. Þar talar Hjálmar um Fjörðinn og á við verslunarmiðstöðina á meðan viðmælandi hans, Jónatan Garðarsson notar réttilega eintölumyndina Fjörð. Reyndar var þetta ekki eini nafnaruglingurinn í þættinum því Hjálmar talaði um Reykjavíkurveg þegar hann var að tala um Hafnarfjarðarveg. Reykjavíkurvegur nær aðeins frá Strandgötu að Engidal, gatnamótum Álftanesvegar, Reykjavíkurvegar, Fjarðarhrauns (Kanavegarins eða Keflavíkurvegarins) og Hafnarfjarðarvegar. Þó þessi útvarpsþáttur hafi verið nefndur hér skal ekki varpa neinni rýrð á hann sem slíkan, áhugasamur þáttur um málefni bæjarins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband