11.4.2007 | 14:51
Hafnfirðingar eins og eftir framhjáhald?
Hafnarfjarðarbær er ekki klofinn eftir niðurstöður í íbúakosningum. Enginn hleypur eftir götum bæjarins og fagnar, enginn læðist um að nóttu og brýtur rúður í óánægjukasti - en það er sem bæjarbúar svífi í lausu lofti. Svífi í lausu lofti og viti ekki hvort þeir eigi að vera ánægðir eða óánægðir. Íbúalýðræðið 31. mars sl. upplifist kannski eins og framhjáhald, spennandi á meðan það var en nagandi og skemmandi á eftir. Hvað gerum við nú?
Fyrir nokkrum árum síðan var samþykkt deiliskipulag fyrir miðbæinn sem gerði ráð fyrir 4 hæða húsum við Strandgötuna. Þetta hlýtur að hafa verið gert að yfirlögðu ráði og stefnan mörkuð um yfirbragð miðbæjarins. Eða hvað? Blettadeiliskipulagsaðferðin er orðin allráðandi og bara ef einhverjum dettur í hug að þrefalda hæð húsa þá skal hann fá leyfi til að gera tillögu að breyttu deiliskipulagi á þeirri einu lóð. Eru menn búnir að gleyma að bæjarstjórnin samþykkti að leggja undir dóm bæjarbúa hvort auglýsa skyldi deiliskipulagstillögu fyrir svæði undir stækkað álver. Sú tillaga fékk aldrei stjórnsýslulega og lýðræðislega meðferð! Er ekki hægt að fá að treysta á að leikreglurnar séu virtar? Er það ekki lýðræðisleg krafa? Enn á ný er miðbærinn okkar leiksoppur framkvæmdaaðila. Síðast var það Fjörður sem kostaði Hafnarfjarðarbæ offjár og miklar deilur. Enn á Hafnarfjarðarbær bílakjallarann þar og hefur verulegan kostnað af. Af hverju?
Ég spyr enn og aftur: Af hverju er ekki skipulögð hugmyndasamkeppni um framtíðarútlit miðbæjarins okkar? Fáum ferskar hugmyndir og látum ekki háhýsi og bílastæðahús einkenna okkar gamla miðbæ. Fáum fleiri með hugmyndir til að vera með.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.