Gott fyrir gróðurinn

Loksins fór að rigna. Eftir að hafa verið upptekinn við mótauppslátt og moksturs á lóðinni hjá mér í blíðskaparveðri fór að rigna. Þetta var líka alvöru rigning, hellirigning beint niður. Mér var strax hugsað til birkiplantanna sem ég gróðursetti hér í hlíðinni fyrir neðan lóðina mína. Síðan þá hafði ekkert rignt fyrr en nú. Annars er saga að segja frá þessum birkiplöntum. Ég hitti Bödda garðyrkjustjóra bæjarins og spurði hvort ég mætti ekki eyða lúpínunni sem væri að vaxa upp í brekkunni. Sagði hann það sjálfsagt mál og gekk ég þá á lagið og sagði að eðlilegast væri að planta birkiplöntum í brekkuna. Taldi hann það vel við hæfi. Ég sagði að ég skyldi meira að segja setja þær niður ef hann kæmi með nokkra bakka og sá ég mig fyrir mér með plöntustaf í brekkunni. Tók hann vel í það og tveimur dögum síðar, er ég kom heim, var óvenju grænt í innkeyrslunni og var Böddi þá búinn að senda til mín 20 myndarlegar birkitré í pottum svo ekki dugði einn plöntustafur og skóflan var sótt. Það tók okkur feðgana ekki nema hálfan annan tíma að koma plöntunum niður og klippa lúpínuna niður en ég var hálf hræddur um að þær dræpust í þurrkinum sem á eftir kom. Þær virðast þó flestar lifandi og vonandi hefur rigningin gert þeim gott og innan fárra ára verða þetta orðnar myndarlegar plöntur og miklu fallegri en sjálfsáðu víðiplönturnar sem vaxa þarna eins og arfi og þarf að klippa reglulega.

En þökk til Bödda hjá Hafnarfjarðarbæ - hann brást hratt og vel við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Guðni.

Já það verður gaman að sjá umhverfið fegurra hér í Firðinum. Það rigndi loksins eitthvað sem heitið getur.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 30.7.2007 kl. 01:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband