Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
1.11.2008 | 00:21
Yndislegur en erfiður dagur
Í dag bar ég móður mína til grafar. Útförin var gerð frá kirkjunni okkar, Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Fjölmargir fallegir kransar, blóm og skreytingar settu kirkjuna í hátíðarbúning sem hæfði mömmu. Kirkjan var troðfull og ennfremur var troðfullt í safnaðarheimilinu þar sem gestir fylgdust með á sjónvarpsskjá. Guðmundur Sigurðsson organisti og Hjörleifur Valsson fiðluleikari, tveir yndislegir menn og frábærir tónlistarmenn léku ljúf lög fyrir athöfnina og ég gat ekki annað en brosað og hálf dillað mér með. Ég vissi að mömmu hefði líkað lögin vel og ég sá hana fyrir mér dansandi vals og tangó eftir þessum ljúfu lögum. Ég man eftir Ramóna og Ég er kominn heim, lög sem mamma hefði verið ánægð með.
Sjálf athöfnin hófst með forspili, Cavatini úr The Deer hunter, geysilega fallegt lag sem ég hafði bara heyrt spilað á gítar, en þeir félagar fóru afskaplega fallega með lagið.
Prestur við athöfnina var góður vinur okkar Einar Eyjólfsson sem hefur einstakt lag á að gera svona athafnir eðlilegar og fallegar. Fólk var kvatt til að taka undir í söng eins og mamma hefði viljað og mörgum fannst það svo gott að geta sungið með. Það er reyndar með ólíkindum að almennt skuli ekki sungið með í útförum. Mér finnst ég ekki vera þátttakandi nema ég fái að syngja með. Fyrsta lagið var sálmur sem mikið var sunginn í sveitinni, Ævibraut vor endar senn sem að jafnaði er sungið nokkuð hressilega af miklum krafti. Nú var það í spariútgáfu, mjög fallegt og ljúft að syngja með. Ég verð þó að viðurkenna að röddin brást nokkrum sinnum, tilfinningarnar streymdu fram.
Söngurinn var fallegur, lögin voru falleg og ég var óskaplega ánægður með athöfnina. Vissulega hefðum við viljað koma öllum fyrir í kirkjunni en það er ekki allt fengið. Ég hefði hvergi annars staðar viljað vera og leyfi mér bara að vera eigingjarn, mér leið óskaplega vel, umfaðmaður í þessari fallegu kirkju, hvað gat maður beðið um betra? Minningarorð sr. Einars voru óskaplega ljúf og beint áfram. Auðvitað höfðum við ljáð honum ýmsar staðreyndir en Einar þekkti mömmu og lýsti henni bæði vel og fallega. Ég gat brosað í hjarta mínu í minningum um undursamlega móður en þegar hann minntist á dansinn okkar mömmu, við rúmstokkinn, hálfum öðru sólarhring áður en hún dó, fannst mér allt ætla að bresta, tárin flæddu og ég var að því kominn að bresta í alvöru grát. Svo ljúfsár var sú minning. Mamma vildu oft setjast upp í rúminu, virtist líða betur svo. Einnig vildi hún oft setja fæturna út fyrir rúmstokkinn og eintaka sinnum stíga niður á gólfið. Þetta gerði hún þarna þegar ljóst var orðið að ekkert var hægt að gera annað en að reyna að láta henni líða sem best. Þarna stóð hún í faðmi mér og ég spurði hana hvort hún vildi ekki bara dansa, hvort við ættum ekki bara að dansa vals og svaraði hún þá, sem vart hafði mælt orð af vörum lengi, já, já og ég fann veikar hreyfingar hennar þar sem hún vaggaði sér aðeins til hliðar. Léttleikinn var enn til staðar þó aðeins væri biðin ein eftir.
Eftir minningarorðin söng hún Maríanna frænka (Másdóttir) Faðir vorið og gerði það dásamlega eins og við var að búast. Mér finnst reyndar ekki að það eigi að vera að gera faðir vorið að söng, kannski er það óþarfa viðkvæmni í mér, en söngurinn var fallegur og mömmu fannst óskaplega fallegt að hlýða á Maríönnu syngja þetta lag við jarðarför Hrefnu mágkonu sinnar fyrir skömmu.
Barnabörnin báru blóm og kransa, undursamlegur hópur og tengdabörn og tengdabörn okkar systkina báru kistuna úr kirkju og við systkinin, og þrjú barnabörn báru kistuna síðustu metrana í kirkjugarðinum þar sem mamma hvílir nú við hlið pabba sem dó fyrir 9 árum síðan.
Gríðarlegur fjöldi kom í erfidrykkjuna þar sem hann Ottó hafði ásamt sínu dekkað fallega upp borð og bauð upp á dýrindis kökur og snittur. Ég hafði tekið saman myndir af mömmu og við sýndum þær á stórum tölvuskjá. Myndirnar voru allt frá því mamma var barn þar til nú fyrir nokkrum vikum síðan. Hafði fólk greinilega mjög gaman af að skoða þær. Þó við erfiðar aðstæður væri var mjög gaman að hitta alla ættingjana, vini og kunningja sem maður sér allt of sjaldan. Þótti mér óskaplega vænt um að hitta allt þetta fólk og gott að vita af öllu þessu fólki sem átti góðar minningar um mömmu sem nú var farin frá okkur.
Minningarnar eru allt það sem við eigum eftir en þær eru líka margar og ljúfar. Elsku mamma, hvíl þú í Guðs friði. Hafðu eilífa þökk fyrir allt sem þú hefur veitt okkur. Minning þín mun aldrei deyja.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.10.2008 | 19:11
Móðir mín lést í dag
Mamma, Margrét Guðnadóttir lést í morgun. Eru þá báðir. foreldrar mínir fallnir frá en pabbi lést 22. ferbrúar 1999.
Mamma fæddist í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð 9. janúar á því merkisári 1930, dóttir hjónanna Guðna Markússonar frá Kirkjulækjarkot, trésmiðs og prédikara og Ingigerðar Guðjónsdóttur frá Brekkum í Hvolhreppi.
Hún var sjöunda barn foreldra sinna en alls urðu börnin níu. Aðeins fjögur þeirra er nú eftir, farin eru Ninni, Maggi, Grétar og Dídí auk mömmu. Á stóru heimili var mikið að gera og mamma gekk til þeirra starfa sem til féllu hvort sem það var matseld eða fatasaumur. Mamma fór í Húsmæðraskólann í Hveragerði og útskrifaðist þar. Hún gegndi fjöldi þjónustustarfa, var 18 ára ráðskona á Tumastöðum, starfaði við þjónustustörf í Tryggvaskála en eftir að hún giftist föður mínum 23. júlí 1953 tók saumaskapurinn fljótt að verða hennar mesta starf fyrir utan að ala okkur Elínu systur upp sem var ærin starfi. Þau bjuggu í Danmörku í um 2 ár þegar pabbi lauk námi í rafmagnsverkfræði og komu heim í ársbyrjun 1956 rétt áður en Elín fæddist og þegar ég kom til sögunnar árið 1957 bjó fjölskyldan að Lindarhvammi 9 í Kópavogi. Þaðan lá leiðin á Kársnesbraut 13 og bjuggum við þar í eitt ár þangað til við fluttum í bílskúrinn í eigin húsnæði að Brekkuhvammi 4 í Hafnarfirði og þar átti ég 5 ára afmæli mitt.
Tvinni og títuprjónar eru samofnir æskuárum mínum mamma saumaði nær öll föt á okkur auk þess að sauma fyrir aðra. Ingunn fæddist svo 1967 og fjölskyldan var þá komin í endanlega stærð. Eins og ætlast er til af mömmum, var hún alltaf til staðar, tilbúin til að hlusta, gefa okkur mjólk og köku, þerra tárin og að telja í okkur kjark. Ekki ber skuggi á minningar mínar af mömmu og er ég ævarandi þakklátur henni og stoltur að hafa átt slíka mömmu.
Á mínum unglingsaldri fór hún meira að sinna verslunarstörfum, starfaði í Hafnarborg á meðan þar var verslunarrekstur, seldi hljómflutningstæki og raftæki hjá Einari Farestveit þar til hún réð sig á Skattstofuna við Suðurgötuna þar sem hún starfaði þar til hún hætti að vinna.
Mamma var listakona á mörgum sviðum, ég er búinn að segja frá saumaskap hennar en hún var snillingur föndri og á efri árum fór hún að mála og lætur eftir sig fjöldamörg listaverk einnig útskorin, gerð í gleri og útsaumuð. Hún var virk í starfi Félags eldri borgara, var þar í stjórn og virk í starfi, dansi, pútti, málun, glerlist og kórstarfi.
Hún lagðist inn á spítala á laugardegi fyrir hálfum mánuði, kvefuð með hita sem var áhyggjuefni vegna þess hvítblæðis (CMML) sem hrjáði hana en sem hún hafði tekist á við af miklu æðruleysi og dugnaður hennar var aðdáunarverður.
Við öll kveðju mömmu með miklum söknuði og munum nú leitast við að fylla huga okkar af ánægjulegum minningum til að takast á við sorgina sem særir okkur á, þó á góðan máta.
Vinir og fjölskylda | Breytt 1.11.2008 kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.7.2008 | 01:17
30 ára hjónaband
16.3.2008 | 17:53
Jakob á IMWe
Jakob var að láta vita að hann væri kominn til Rieneck kastala, 80 km austan við Frankfurt þar sem hann tekur þátt í IMWe 2008, Internationale Musishe Werkstatt sem Bandalag kristilegra skáta í Þýskalandi standa fyrir. Í undirbúningshópi eru 14 skátar frá 7 mismunandi löndum og fulltrúi Íslands er Jón Ingvar Bragason, f.v. fræðslufulltrúi BÍS.
Rieneck kastali er glæsileg evrópsk skátamiðstöð þar sem fjölbreytt dagskrá er í boði allan ársins hring.
Sjá nánar á www.imwe.net
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)