Haustvonbrigði

Hlaupasumrinu er lokið. Þriðja hlaupasumrinu sem hefur verið mér mjög ánægjulegt, ekki síst vegna þess að ég setti persónulegt met í 5 km hlaupi, 7 km hlaupi, 10 km hlaupi, hálfu maraþoni og heilu maraþoni. Léttast var að setja met í maraþoninu vegna þess að ég var að hlaupa þá vegalengd í fyrsta sinn. Engu að síður var ég montinn með tímann minn og bara mjög ánægður með öll þessi hlaup.

Svona fór ég inn í haustið, hafði aldrei hlaupið eins mikið áður, var í hörku formi og bara  mjög ánægður með sjálfan mig - fannst ég vera að standa mig bara þokkalega vel miðað við aldur og fyrri störf. En þá kom bakslagið.

Teygjur hafa aldrei verið mitt uppáhald, sennilega vegna þess að ég hef einhvern veginn ekki komist upp á lag með þær, kann þær ekki nógu vel og man svo ekki hvaða æfingar á að gera hverju sinni. Svo varð mér að ósk minni og hún Þórunn var svo elskuleg að stjórna okkur í teygjum/jóga eftir hlaupin á þriðjudögum.

Kátur og spenntur í bókstaflegri merkingu tók ég þátt en þá kom bakslagið. Ég hef alltaf talið mig sæmilega liðugan, getað sett lófana í gólfið án þess að beygja hnén svo dæmi sé tekið. En þegar Þórunn sat á gólfinu framan við okkur og sýndi æfingar sem ég reyndi að fylgja eftir en þar var hugurinn miklu viljugri en líkaminn sem hreinlega neitaði og sinadráttur og undarlegar tilfinningar gerðu vart við sig á stöðum sem ekki var verið að þjálfa. Þegar ég fann að ég gat ekki hreyft útlimina eins og beðið var um varð ég fyrir miklum vonbrigðum og fannst ég vera orðinn gamall.

Nú var staðan 1-1, 1 fyrir hlaupin og 1 fyrir lélegar teygjur.

En ekki batnaði það. Okkar ágætu þjálfarar fóru að láta okkur gera ýmsar æfingar í bland við hlaupin, æfingar sem ég man ekki að nefna, armbeygjur, magaæfingar, kálfaæfingar, plankann og fl. og fl. Þó að kallinn væri ágætur að hlaupa þá var þetta ekki alveg að gera sig. Ég hef oft gert þessar æfingar  - í huganum - og þær hafa gengið mjög vel. En í alvörunni þá var ég eins og kelling (fyrirgefið elskur ef þið takið þetta til ykkar) ég var bara ekki að meika þetta og það fór í taugarnar á mér. Ég var farinn að kvarta og kveina og montið vegna ágætra hlaupa var fokið út í veður og vind.

Nú var staðan 1-2, 1 fyrir hlaupin gegn 1 fyrir lélegar teygjur og 1 fyrir ömurlegar æfingar.

Reyndar bjargaði hún Þórdís, hlaupakonan mín, mér er hún sagði í dag "og þú hættir þó ekki að tala..." Áttaði ég mig á því að ég gat með stolti sagt að staðan væri 2-2, hlaupin og talandinn gegn teygjunum og æfingunum.

Þá er bara að finna dýnuna sem ég keypti fyrir áratug, teygja og teygja og gera allar magaæfingarnar og þjálfa efri hluta líkamans - upp að munni - þar til staðan verður 4-0 fyrir mér.

Annars var æfingin í dag sérstök, fyrsti snjórinn í vetur og ég, alltof seinn, mátti ekki vera að því að skipta innleggjunum úr léttu sléttbotna skónum yfir í betri skó í svona færð, því ég bjóst við hálku, en þegar ég keyrði af stað var komin snjókoma. Það var hált á brautinni og enn verri urðu æfingarnar fyrir vikið, skítkalt og engin viðspyrna.

En mikið svakalega var þetta þó gott í lokin (ef ég hefði ekki farið að horfa á FH tapa fyrir Akureyri) og sófinn var minn besti vinur í kvöld eftir að strákarnir höfðu eldað matinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband