7.12.2012 | 22:55
Maður á þínum aldri..
Þegar ég varð fimmtugur fyrir hálfum áratug varð ég rosalega sáttur. Ég var bara mjög sáttur við aldurinn og ég áttaði mig á því að ég var farinn að lifa í núinu því það var ekkert næsta stórafmæli framundan. Enn er ég sáttur og enn er ég fimmtugur þó árunum hafi fjölgað.
Á hlaupunum hef ég alveg verið sáttur að vera elstur eða með þeim elstu og ég hef getað verið sáttur við minn árangur - líka miðað við aldur. Því varð mér nokkuð brugðið þegar mér var sagt í lok hlaupaæfingar um daginn, þegar ég var reyndar gjörsamlega búinn og lá fram á vegg, að ég þyrfti að fara varlega, kominn á þennan aldur!
Á fimmtudaginn var hlaupið rólega af stað frá Kaplakrika með Elíturnar flottar fremstar. Auðvitað tókst mér að fá baul frá þeim, í þetta sinn án þess að segja neitt svo nú veit ég ekki hvort ég eigi að þegja eða tala. Sennilega er ég betri í því síðarnefnda.
Æfinguna á fimmtudag mátti kalla "lærakvöl í tröppunum" en þá lét hann Pétur þjálfari okkur hlaupa fimm ferðir upp Flensborgartröppurnar, í hverja tröppu og aðra hverja tröppu til skiptis. Efst lét hann okkur ganga 28 skref og setja hnéð niður í hverju löngu skrefi, þá áttum við að beygja hnén, setja hendur í jörðu og hoppa svo - 10 sinnum. Þá var farið rólega niður tröppurnar og neðst tóku við 10 hnébeygjur og svo upp á ný. Lærin loguðu strax eftir fyrstu ferð. Að þessu loknu tók við liðakeppni, 5 ferðir upp tröppurnar, eina tröppu og tvær tröppur til skiptis.
Þetta var keppnis og ég gaf allt sem ég átti og það skilaði mér hratt upp, þó ekki nógu hratt upp einu sinni þegar stíga átti í hverja tröppu og refsingin var - 10 hnébeygju!
Ef einhver hélt að þetta væri nóg þá tók við hópeflishælalyftur - hópurinn leiddist í hring og hælalyftur tóku við, með fætur beinar, innskeifar og útskeifar.
Mínar orkubirgðir voru uppurnar og mér leið ekki vel, svipað eins og í alvöru endaspretti í stuttu hlaupi. Mér leið illa og hálf lagðist utan í steyptan vegg. Voru Elíturnar ekki komnar umhyggjusamar og hreinlega neyddu mig að beygja höfuðið niður. Ekki amalegt að hafa þær, hverja með sitt sérsvið. Þær gáfu mér af vatnsbirgðum sínum og sennilega björguðu þær mér frá bráðum íþróttabana.
Ég skrönglaðist svo af stað og strákarnir sögðu að ég væri kominn með nýjan hlaupastíl. Hann lagaðist svo eftir því sem ég hresstist við og ég komst í góðum hópi heill í Kaplakrika.
En þegar þetta er skrifað er föstudagskvöld og lærin eins og steinsteypa. Þrepin í stigunum heima eru allt í einu orðin hærri en vanalega og mér líður best þegar ég forðast óþarfa hreyfingar. En klikkunin í þessu öllu er að ég hef áhyggjur af því hvort ég geti hlaupið á morgun. Hvað er hlaupið í mann?
Þetta leiðir huga minn að því hvað keppnisskap í rauninni sé. Ég hef alltaf haldið að ég væri ekki með mikið keppnisskap af því að ég hef aldrei verið æstur í að taka þátt í keppni. Hins vegar hef ég áttað mig á því að þegar ég er kominn í keppni þá er fjandinn laus. Kannski kallast það keppnisskap þegar skynsemin rýkur út í veður og vind. Kannski er það bara gaman en þegar sagt er við mann að maður þurfi að fara varlega, kominn á þennan aldur, þá er það ekkert gaman lengur, eða hvað??
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.12.2012 kl. 12:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.