24.5.2007 | 15:58
Allt rættist það
Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins sagði af sér, stjórnarmyndunum við Framsóknarflokk var slitið og stjórn mynduð með Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu - Samstæðisstjórnin. Þessu var ég búinn að spá í leiðara Fjarðarpóstsins og hér í blogginu.
Ég reiknaði þó með að Sjálfstæðisflokkurinn hefði séð að sér en þeir segja Framsóknarflokkinn hafa slitið viðræðunum. Það er þá meira spunnið í Framsóknarmennina en ég hélt. Maður getur ekki verið sannspár í öllu.
Gunnar Svavarsson, sveitungi minn og vinur leið fyrir kynferði sitt og fékk ekki ráðuneyti. Kannski var hann ekki nógu þekktur en hann hafði heldur ekki verið í Kvennalistanum frekar en Katrín Júlíusdóttir sem líka var úti í kuldanum. Svona gerast kaupin á eyrinni. Ef menn halda að jafnrétti jafngildi kvótakerfi þá er það hinn mesti misskilningur. Við getum öll verið sammála jafnrétti en kvótaskipting á grundvelli kynferðis er eitthvað sem ég vil ekki sjá.
Auðvitað vonast ég til að þessi stjórn verði farsæl, það kemur mér og öðrum landsmönnum best. Gunnar mun örugglega ekki sitja auðum höndum og fær örugglega ýmsar nefndarstöður og fær nóg að gera. Heilsa hans verður bara að segja honum hvort hann eigi að vera á fullu á tveimur stöðum.
Lengi lifi jafnréttið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.