Börn unga eða ungbörn

Hvar er hreintungustefna Morgunblaðsins? Er ekki verið að segja frá ungbörnum (ekki ungabörnum)? Svona orð set ég í safn með "barnaborgurum" og öðrum orðskrípum og kýs annað í mína borgara.

En segir þetta ekki okkur foreldrum að fara varlega að troða lyfjum í börnin okkar í hvert skipti sem þau fá hitavott. Sennilega er alltof lítil almenningsfræðsla um viðbrögð við algengum sjúkdómum en fólk treystir orðið of sjaldan á eigið hyggjuvit og þorir ekki öðru en að gefa börnunum lyf sem oft eru í besta falli alveg óþörf.


mbl.is Paracetamol getur orsakað astma hjá börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Guðni,

Mikið er ég fegin að öðrum en mér verði óglatt, þegar fólk talar um "ungabörn".  Mér vitandi eiga ungar aldrei börn.   Mér var kent í skóla í gamla daga að tala um ungbörn, ég hef aldrei heyrt að "ungar" hafi eignast börn.

Ég er fegin því að þú standir vörð um íslenskuna, ekki veitir af.

Guðrún Jónsdóttir,

Hjúkrunarfræðingur. 

Guðrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 01:53

2 identicon

Þessi rannsókn er enginn endanlegur dómur um Paracetamól vegna þess að hún er ekki nógu vel unnin.  Annars er það mín reynsla að ofneysla á sýklalyfjum sem er stærra vandamál. 

Annað stærra vandamál er ofgreining á ofnæmum hjá börnum.  Þar eru notaðar ónákvæmar og lélegar rannsóknir til að meta þetta. Og niðurstöður blóðrannsókna eru stórlega ofmetnar  Það er álitið einunigis 5% barna með raunveruleg fæðuofnæmi.

Gunn (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 19:48

3 identicon

Sæll Guðni,

það er greinilegt að þú hefur ekki alveg nógu góða þekkingu á tungumáli okkar og reglum þess, og það fer alltaf jafn mikið í taugarnar á mér þegar fólk er að amast útí hluti og ganga jafnvel svo langt að leiðrétta mál annarra með því að benda á ,,villur'' sem eru ekki einu sinni villur!

Þannig er nú með okkar mál sem og flest önnur að þau byggjast á aldalangri hefð en eru ekki búin til á vísindastofnun. Þetta útskýrir ýmsa málfræðilega óreglu, svo sem t.d. sögnina að vera - ég er. Mjög óregluleg, enda er sögnin að vera óregluleg í flestum málum sem við þekkjum. Þetta byggist á aldalangri hefð og sögnin að vera var sko ekki beygð eins á tímum Snorra Sturlusonar og hún er í dag - samt held ég að við séum flest sámmála um hvernig rétt sé að beygja hana í dag.... en allavega svo ég komi mér nú að því sem ég ætlaði að segja þá er það ekki rangt að tala um nýfædd mannabörn sem ungabörn. Hér er einfaldlega um að ræða innskots-a sem er að finna víðar í máli okkar sem stafar af þeirri einföldu ástæðu að það er þjálla að segja ungabarn heldur en ungbarn - hið fyrra flýtur einhvernveginn betur. Þetta innskots-a hefur hér verið rangtúlkað sem málfræðivilla, og þykir það mér miður. 

Alltaf dettur mér ákveðið orð í huga þegar ég rekst á fólk eins og þig. Segjum að þú ætlir að fá þér majónes sallat með rækjum. Ég leyfi mér að gera ráð fyrir að þú kallir það rækjusalat - eins og 99% allra annarra Íslendinga. En aaah! það er hins vegar málfræðilega rangt...nema auðvitað það sé bara ein rækja í salatinu þínu. Hið málfræðilega rétta orð væri ræknasalat (ft.ef.). En, samt segir fólk frekar rækjusalat því það hljómar ,,réttara''. Fyndið þetta mál íslenska og enn fyndnara þetta fólk sem talar það :)

Kv, Aðalheiður - áhugamanneskja um tungumál og verndun móðurmáls okkar. 

Aðalheiður (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 21:04

4 Smámynd: Guðni Gíslason

Sæl Aðalheiður.

Ertu þarna ekki að falla í eigin gröf. Hver talaði um villur? Hvað veistu um mína þekkingu?

Þegar annað betra og réttara orð er til - til hvers að nota það sem er verra? Þú getur líka tekið dæmi um orðatiltækið "að eiga von á eh." Það er gömul hefð að nota það jafnvel þó átt sé við "að búast við eh." Það ber hins vegar vott um fátæklegt málfar ef menn gera ekki a.m.k. á stundum greinarmun á þessu tvennu. Menn geta búist við eh. en ekki átt von á því eða öfugt. Orðið barnaborgari er ekkert rangt, borgari fyrir börn en með hliðsjón af nafngiftum borgara sem lýsa innihaldinu er þetta í versta falli vont orð.

Ég er alveg sammála þér um rækjusalatið og getur þú bætt við orðum eins og fiskbúð og skóbúð. Það eru fjölmörg undarleg orð í íslensku eins og bílaleigubíll en það réttlætir ekki að menn noti orð sem særir málvitund fjölmargra og gefur þeim fullan rétt að tjá hug sinn um málnotkunina.

Með góðri kveðju,

Guðni

Guðni Gíslason, 22.9.2008 kl. 08:56

5 identicon

Sæll aftur,

það var nú ekki ætlun mín að fara að munnhöggvast við þig eða aðra. Ég vildi einungis benda á það sem mér fannst þú túlka rangt. Það að bæta við innskots-a þarna í ung-barn túlkaðir þú á þann veg að þarna væri málfarsvilla sem breytti merkingu orðsis og væri hér komið orð sem ætti við börn unga en ekki ungbörn. Þar liggur villan, enda gerir þú þá ráð fyrir að þetta sé eignarfallsending en ekki innskot. Ástæðan fyrir því að þetta a hefur skotist þarna inn er líklega hljóðfræðileg.

Ég get líka ekki að því gert að ég er á móti og harðri forskriftarmálfræði - þar greinir okkur líklega að... þú virðist aðhyllast þessa klassísku forskriftarmálfræði af gamla skólanum sem lengi hefur tíðkast hér, eða frá því upphafi sjálfstæðisbaráttunnar. Ég lít hins vegar á mig sem lýsandi málfræðing (ég veit þér á eftir að sárna þetta en hér eiga erlendu fræðiorðin betur við, og er hér talað um prescriptive og descriptive grammar - þessi orð eru að mínu mati ekki jafn gildishlaðin og þau íslensku). Það er kannski ekki nema von að forskriftarmálfræðingar eigi undir högg að sækja og séu oft flokkaðir með risaeðlum, enda er það því miður oft raunin að því eldra sem málið er því réttara er það (að þeirra mati), þeir verða því oft svolítið eftir á, og leggja áherslu á hluti sem eru að deyja út í málinu og verður innan skamms orðið ,,rangt'' að mati flestra. Aftur tek ég hér dæmi. Undir lok 18. aldar var lenska að tala um ,,að fara til læknirisins'' - beygingarendingin 'ir' hélt sér í öllum föllum en ekki bara í nefnifalli. Ef.et. var því ,,lækniris'' en ekki læknis líkt og nú.Þegar fólk fór að hætta að segja lækniris fór það mjög fyrir brjóstið á málverndunarsinnum.... en þróunin hélt áfram þrátt fyrir það og núna er þetta orsðkrípi/rétta orðið dautt. Fyrir utan eitt orð, enda festist það í orðatiltækinu ,,að vera komin á steypirinn''.

Auðvitað skil ég vel þá kröfu að fréttamenn noti fallegt og lifandi mál, og ekki síður fjölbreytt og rétt. Og ég er sammála því að þetta er helsti galli fréttamanna hérna á mbl.is. Málfar þeirra er hroðalegt, óvandað, málfræðilega, setningafræðilega og stafsetningalega rangt auk þess að vera oft það sem við köllum copy-past-að og lauslega þýtt yfir á afar bjagaða íslensku. Lélegar og beinar þýðingar úr ensku er oft ansi ljótar hérna. Mér finnst þetta skammarlegt og ég hef rekist á heilu greinarnar sem eru bara froðusull alveg frá fyrirsögn til niðurlags. Það á að gera miklu miklu harðari kröfur til fréttamanna um að þeir hafi betra vald á tungumálinu - nú eða í minnsta falli ráða sæmilega prófarkalesara!

Stundum kemur þó fyrir að moggabloggarar fiski á röng mið og leiðrétta það sem ekki þarf leiðréttingar við. Ég hef samt ekki enn rekist á athugasemd við fyrirsögn sem ég sá hér fyrir nokkrum dögum: ,,Lögmaður fékk greitt í fríðu'' .....ja mér er spurn..... 

Aðalheiður (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 12:49

6 Smámynd: Guðni Gíslason

Sæl Aðalheiður.

Nei, fólk í sama liði á ekki að munnhöggvast enda leit ég ekki á orðaskiptin þannig. Tónninn í fljósskrifuðu máli er ekki allt sá hinn sami og í huganum býr.

Það myndi æra óstöðugan ef maður gerði alltaf athugasemdir við skrifin á mbl.is auk þess sem við sjálf erum ekki óbrigðul. Frægur nafni minn tók nærri sér eigin mistök í útvarpsþætti forðum.

Ég held hins vegar að nauðsynlegt sé að við segjum skoðun okkar á málfari og málnotkun til þess að viðhalda umræðu um íslenska tungu. Þegar umræðunni lýkur er málið dautt.

Annars finnst mér einstaka mistök í máli bara til skemmtunar og að einhverjir taki eftir því segir okkur bara það að fólk er meðvitað um málið. En ég ítreka að stundum verður sumt vont sem ofnotað er. Undanfarið hefur hugtakið "um er að ræða" farið óskaplega í taugarnar á mér, ekki síst þegar það kemur fyrir oft í sömu fréttinni og þar eru ljósvakamiðlarnir enn verri en hinn málfarsvondi mbl.is

Takk fyrir spjallið.

Guðni Gíslason, 22.9.2008 kl. 13:25

7 Smámynd: Kristbergur O Pétursson

Þakka ykkur fyrir þessi fræðandi skoðanaskipti.

Kristbergur O Pétursson, 23.9.2008 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband