Mamma og óþekktarormarnir

Strákarnir eru búnir að vera að spila á spil í langan tíma eftir að mamma kenndi þeim að spila þegar þeir voru litlir. Nú um daginn voru sumir orðnir gráðugir og héldu nokkrum spilum fyrir sig og vildu ekki deila með öðrum. Hinir sættu sig ekki við þetta og þeir fóru að slást. Mamma kom þá inn, skakkaði leikinn og tók af þeim öll spilin og sátu þeir hnýpnir eftir. En mamma er góð og stokkaði spilin og deildi spilunum út eftir viðurkenndum reglum. Allir fengu nú að vera með á ný. Enginn þorði að hafa rangt við og allir hugsuðu fallega um hvern annan og þegar spilinu lauk var gefið á nýjan leik. Þó var alltaf talið í bunkanum við og við, traustið var ekki jafnt sem fyrr.

Enginn vill að mamma stjórni öllu en samt viljum við að mamma grípi inn í þegar illa gengur. Þegar vel gengur stöndum við ríg­montnir og mamma gleymist en þegar illa gengur munum við öll eftir mömmu. Svona upplifi ég einkavæðinguna og ríkisvaldið.

Flottræfilshátturinn og stórmennskan hafa dregið okkur niður í svaðið, þeir nýríku héldu að þeir væru svo miklu betri en hinir og gætu það sem aðrir gátu ekki. Það er gott og oft nauðsynlegt að vera kjarkaður en eins og áhættuleikarar og töframenn vita þá verða menn að hafa aðstæðurnar á sínu valdi. Ekkert má vera tilviljunum háð, og sá sem gengur eftir línunni verður að vita hvað þarf að gera ef vindur fer að blása. Hinir nýríku gleymdu sér í dásemdum sínum.

Hver verður staða venjulega fólksins? Hvað gerist með gengið? Ríkur verðbólgan upp? Hvað sem gerist er eitt víst. Trúverðugleiki okkar Íslendinga hefur orðið fyrir miklu tjóni. Þá er líka ljóst að áhrifin verða keðjuverkandi. Það er ekki hægt að hlakka yfir óförum þeirra nýríku, hvort sem þeir hafa grætt á viðskiptum, fengið kvóta á silfurfati frá þjóðinni eða rænt sparisjóð, ófarir þeirra hafa áhrif á okkar líf eins og velgengnin gerði líka, þó í miklu minna mæli hafi verið.

Hafnarfjarðarbær skuldar háar fjárhæðir í erlendum gjaldeyri og Seðlabankinn getur ekki haldið genginu niðri. Útgjöld munu stóraukast, fyrirtæki munu mörg hver minnka umsvif sín en sem betur fer búum við líka að öflugum útflutningsfyrirtækjum sem kannski verða ljósið í tilveru okkar á næstunni.

(leiðari Fjarðarpóstsins 9. október 2008) www.fjardarposturinn.is


mbl.is Bankamenn í tilfinningarússi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband