Há fasteignagjöld

Í umræðunni um stækkun álversins í Straumsvík virðast allir sammála um að það skipti máli að enginn missi atvinnu sína. Fylgjendur segja atvinnu aukast mikið og and­stæðingar segja að eitthvað annað komi í staðinn. Kannski er vitleysa að horfa á Hafnar­fjörð sem eitt atvinnusvæði, kannski er alveg eins gott að hafa fyrirtækin í nágranna­byggðunum og láta fólkið sofa hér í bæ. Reyndar er víst afarhagstætt að hafa atvinnuhúsnæði í bænum, af þeim eru heimt svo há fasteignagjöld að bæjarfulltrúa meirihlutans næstum blöskraði.

Fjárhagsvandi íþróttafélaga og bæjarsjóður

Enn bólar ekkert á lausn fjárhagsvanda Haukanna og engar tillögur hafa enn verið lagðar fram. Meirihluti bæjarstjórnar er sagður ásaka minnihlutann um að draga lappirnar en hvenær fór að þurfa á minnihlutanum að halda?
Meirihlutinn væri búinn að leggja fram tillögu í málinu ef þeir hefðu kjark til þess. Kannski á að kjósa um þetta. Kannski á að bjóða þjónustuna við Haukana út skv. útboðsstefnu bæjarins? Ekkert hefur heldur heyrst um kröfur um að bærinn borgi 80% í boltatínsluvél fyrir golfklúbbinn eftir að læða átti málinu í gegnum kerfið en var stoppað af oddvita Sjálfstæðisflokksins sem ku vera illa liðinn af golfforystunni fyrir vikið. Það er líklega erfitt að vera í pólitík og vera vinsæll á sama tíma.

Bankaræningjar og góðverk Svarfdælinga

Það er ótrúlegt hvað sparisjóðsmálið kemur oft upp í huga manns. Góðverk stjórnenda Sparisjóðs Svarfdælinga fær mann auðvitað til þess að hugsa hvað hefði gerst í Hafnarfirði ef „bankaræningjarnir“, eins og ég hef heyrt stofnfjáreigendurna nefnda, hefðu haft sama hugsunarhátt og þeir fyrir norðan? Nei, henni er misskipt gæsku mannanna.


Bæjarfulltrúar með stækkun

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar vilja stækkun álversins í Straumsvík. Mér er alveg sama þó þeir vilji ekki gefa upp afstöðu sína þá samþykktu þeir í bæjarstjórn að senda deiliskipulagstillöguna í auglýsingu. Hún var samþykkt með fyrirvara um samþykki í íbúakosningu. Þeir túlka kosninguna um hvort auglýsa eigi deiliskipulagstillöguna, kosningu um hvort byggja eigi álver og því hafa bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar samþykkt stækkun álversins í Straumsvík. Það er ekki flóknara en svo.


Ófriður og álögur

Á þessum tíma árs hefur mér oft fundist frið­samlegt, en svo er ekki nú. Hart er deilt um stækk­un álversins, komu klámmynda­framleið­enda til landsins, árásargirni Bandaríkjaforseta auk þess sem menn hneykslast á sofandahætti stjórnvalda sem dældu út peningum í Byrgið án nokkurs aðhalds. Oft hefur þessi tími árs verið rólegur, allavega í Hafnarfirði. En svo er ekki nú og það er margt sem deila má um. Hvort reisa eigi 12 hæða hús við Strandgötuna, reisa fimm hæða hús við Flata­hraunið, reisa einbýlishús í Stekkjarhrauni, hvort bæjarsjóður eigi að bjarga illa reknum íþróttafélögum og jafnvel hvort alltaf eigi að borga 80% af öllum byggingum íþróttafélaga, sama í hvað bygg­ingarnar eru notaðar.
Álögur á fasteignaeigendur hækka og spyrja má hvaða vit sé í því að tengja gjald fyrir vatn og frárennsli við verðmæti húss og lóðar. Menn kvarta yfir því að t.d. rafhlöðum sé ekki skilað til eyðingar. Hins vegar þurfa íbúðareigendur að greiða fyrir s.k. græna tunnu og greiða lágmarksgjald ef einni flís er skilað í Sorpu, nema starfsmaðurinn þar sé í góðu skapi og brjóti á gjaldskránni fyrir viðskiptavininn. Auðvitað hendum við alltof miklu en betra er að hafa móttöku sorps góða og gjaldfrjálsa heldur en að fólk hendi drasli á víðavangi. Hins vegar mætti setja skilagjald á sígarettu­stubba, ekki seinna vænna áður en landsmenn verða reknir út með óþverrann sinn.
Ég skora á bæjarstjórn Hafnarfjarðar að taka betur á sorpmálum bæjarins og gera Hafnarfjörð að hreinum bæ. Hann er það alls ekki núna og bæjarbúar skulda bænum snyrtimennsku í afmælisgjöf.
Guðni Gíslason

Strætó og kraftur bæjarbúa

Bæjarstjórnin var einhuga þegar hún beindi því til stjórnar Strætó, að hún taki upp viðræður við umhverfisráðuneytið og samgönguráðuneytið um möguleika ráðuneytanna í kostnaði við gjaldfrjálsar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er kannski bara hænufet áleiðis en skref í rétta átt. Kannski það takist að fá fólk til að nýta almenningssamgöngur og spara þessa gríðarlegu bílanotkun. Hins vegar vissi fráfarandi framkvæmdastjóri Strætó ekki hverjar tekjur væru af innanbæjarakstri í Hafnarfirði þegar undirritaður spurði hann svo eitthvað vantar upp á að lykiltölur í rekstrinum liggi fyrir.

Nú er búið að stofna samtök til stuðnings stækkun álversins. Þar fóru fremstir, forsvarsmenn fyrirtækja sem vinna mikið fyrir Alcan og segja þeir einsýnt að verði álverið ekki stækkað, verði það lagt niður og það muni hafa gífurleg áhrif á fjölmörg fyrirtæki í Hafnarfirði. Spennandi verður að sjá hvernig þetta nýja félag ætlar að berjast fyrir sínum skoðunum en þetta sýnir þó að Hafnfirðingar geta, ef hart er barið á, hópast saman um málefni sem skipta bæjarbúa miklu. Gaman væri ef bæjarbúa létu sig skipulagsmál almennt skipta máli og mættu á auglýsta fundi sem Hafnar­fjarðarbær stendur fyrir. Hverfafundir, lesist íbúaþing, mættu vera haldnir reglulega og verður fundur íbúa í Vestur- og Norðurbæ vonandi til þess að auka áhuga íbúa hverfanna á umhverfi sínu og að standa vörð um útivistarsvæði. Víðistaðatúnið er gott dæmi um svæði sem þarf að standa vörð um og það var ekki spennandi að hlusta á bæjarfulltrúa tala um að taka frá svæði undir grunnskóla við túnið, sem örugglega skerðir aðkomu og bílastæði við svæðið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband