Einn eða allir

Álversumræðan í Hafnarfirði er lífseig. Það hefur farið illa í Samfylkingarmenn í bæjarstjórn að eigna bæjarstjóranum einum heiðrinum af því að klúðra málum fyrir Alcan. Vilja þeir eigna bæjarstjórninni allri heiðurinn eins og öðrum afrekum bæjarstjórnar eða gildir ekki sama um vel heppnuð verk og það sem er miður vinsælt? Það er gott að vita að einingin er orðin svona góð í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og verður skemmtilegra að fylgjast með póltíkinni í bænum á næstunni.

Annars segja sögusagnir að nú skoði álversmenn möguleika á stækkun á landfyllingu út í sjó en sjókort sýni að það eigi að vera fremur einföld aðgerð. Það skyldi þó ekki verða að menn finni aðra leið og þá verður spennandi að sjá hvort menn ætli aftur að kjósa um möguleikann í stað þess að setja tillöguna í lýðræðislegan skipulagsferil.


N 1 geisladiskurinn?

það lágu þrír pakkar á gólfinu heima hjá mér í forstofunni. Rauðir plastklæddir pakkar frá N1, sameinuðu vörumerki Esso, Bílanausts og fl. Lögun þeirra gaf til kynna að þetta væru geisladiskar. Eru forsvarsmenn N1 jafn illgjarnir og álversmenn að troða inn á okkur menningu? Ekki þó enn einn Bjögga-diskinn? Nei, ég andaði léttar þegar ég opnaði pakkann og sá að í honum var ekki geisladiskur. Prik til N1. Þarna var þá verið að senda mér og mínum Safnkort N1. Takk fyrir það.

Hins vegar pirraði mig óstjórnlega hulstrið utan um kortið, pakkinn, hann var eins og hulstur utan af geisladiski nema hvað það passaði bara safnkort í hann. Hart plastið og pappinn fóru þá beint í ruslið. Hvernig sem bílafyrirtæki getur orðið umhverfisvænt, þá fær N1 ekkert prik fyrir pakkann. Mér leiðist rusl, ég þarf að losa mig við það. Sendið mér frekar disk með Bjögga, ég geymi hann þá í hillu hjá mér þar til ég er allur. Ágæt frestun á að henda rusli.


Sú eina sem gaf upp afstöðu sína

Það má segja Margréti Gauju til hróss að hún gaf upp hvað hún kaus í íbúakosningunni (þegar hún tók afstöðu til eigin ákvörðunar í bæjarstjórn) þó eftir nokkra pressu. Ekki svo að margir hafa velkst í vafa, öll fjölskyldan var mætt til að fagna með Sól í Straumi.

Megi sól Möggu í Bjarnabæ rísa, það borgar sig að gefa upp afstöðu sína í pólitík.


mbl.is Býður sig fram í framkvæmdastjórn Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafnfirðingar eins og eftir framhjáhald?

Hafnarfjarðarbær er ekki klofinn eftir niðurstöður í íbúakosningum. Enginn hleypur eftir götum bæjarins og fagnar, enginn læðist um að nóttu og brýtur rúður í óánægjukasti - en það er sem bæjarbúar svífi í lausu lofti. Svífi í lausu lofti og viti ekki hvort þeir eigi að vera ánægðir eða óánægðir. „Íbúalýðræðið“ 31. mars sl. upplifist kannski eins og framhjáhald, spennandi á meðan það var en nagandi og skemmandi á eftir. Hvað gerum við nú?

Fyrir nokkrum árum síðan var samþykkt deiliskipulag fyrir miðbæinn sem gerði ráð fyrir 4 hæða húsum við Strandgötuna. Þetta hlýtur að hafa verið gert að yfirlögðu ráði og stefnan mörkuð um yfirbragð miðbæjarins. Eða hvað? Blettadeiliskipulagsaðferðin er orðin allráðandi og bara ef einhverjum dettur í hug að þrefalda hæð húsa þá skal hann fá leyfi til að gera tillögu að breyttu deiliskipulagi á þeirri einu lóð. Eru menn búnir að gleyma að bæjarstjórnin samþykkti að leggja undir dóm bæjarbúa hvort auglýsa skyldi deiliskipulagstillögu fyrir svæði undir stækkað álver. Sú tillaga fékk aldrei stjórnsýslulega og lýðræðislega meðferð! Er ekki hægt að fá að treysta á að leikreglurnar séu virtar? Er það ekki lýðræðisleg krafa? Enn á ný er miðbærinn okkar leiksoppur framkvæmdaaðila. Síðast var það Fjörður sem kostaði Hafnarfjarðarbæ offjár og miklar deilur. Enn á Hafnarfjarðarbær bílakjallarann þar og hefur verulegan kostnað af. Af hverju?

Ég spyr enn og aftur: Af hverju er ekki skipulögð hugmyndasamkeppni um framtíðarútlit miðbæjarins okkar? Fáum ferskar hugmyndir og látum ekki háhýsi og bílastæðahús einkenna okkar gamla miðbæ. Fáum fleiri með hugmyndir til að vera með.


List eða ljósmengun

Velmegunin hefur fært okkur mikla lýsingu og oft hömlulausa. En að lýsa beint upp í loftið er lítið annað en ljósmengun og vildi ég frekar að áhersla væri lögð á betri lýsingu í borg og bæjum svo við gætum frekar séð stjörnuhimininn. Með allri virðinu fyrir Yoko Ono og hennar list þá ætti Viðey að fá að haldast laus við ljósmengun frá eigin lýsingu. Fyrir mér er þetta ekkert friðarljós.
mbl.is Yoko Ono enn stödd á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lásu menn ekki spurninguna?

Lúðvík Geirsson lét bóka á bæjarstjórnarfundi 30. janúar sl: „Bæjarfulltrúar Sam fylkingarinnar benda á að þessi samþykkt bæjarstjórnar tekur til þess að heimila að auglýsa deili skipulags tillöguna með fyrir vara um niðurstöðu atkvæðagreiðslu bæjarbúa, en gert er ráð fyrir því að fram fari kosning um tillöguna þann 31. mars n.k. og fá þá Hafnfirðingar tækifæri til að samþykkja eða synja því hvort hún fari í lögformlegt ferli. (leturbr. höfundar)

Bæjarfulltrúarnir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir og Gunnar Svavarsdóttir gátu hvorugt, eftir kosningarnar, sagt undirritaðuðum rétt til um það hvernig spurningin hlóðaði í íbúakosningunni! Spurningin var í engu samræmi við samþykkt bæjarstjórnar um að senda fyrirliggjandi skipulagstillögu í auglýsingu með fyrirvara um niðurstöðu í væntanlegrar atkvæðagreiðslu meðal íbúa í Hafnarfirði um deiliskipulagstillöguna. Fleiri sem undirritaður spurði eftir kosninguna, vissi ekki hvernig spurningin hlóðaði og einstaka viðurkenndu að hafa ekki lesið spurninguna!

Það var greinilega skilningur bæjarstjóra, skv. bókun hans, að kjósa ætti um það hvort ætti að senda tillöguna í auglýsingu en samþykktin er um að íbúakosningin sé um deiliskipulagstillöguna. Það verður því enn undarlegra að horfa til þess að það var skipulagsstjóri ríkisins sem ráðlagði um orðalagið auk þess sem leitað var til fleiri fræðimanna. Var þá verið að kjósa um deiliskipulagstillögu áður en hún var formlega send í kynningu? Stenst það skipulags- og byggingarlög?

Þessi kosning var að mínu mati algjört klúður og ekkert spor í átt að íbúalýðræði. Fulltrúar Samfylkingarinn neituðu að gefa upp afstöðu sína og bæjarstjóri hefur ekki einu sinni viljað opinbera stuðning sinn við stækkun álversins, núna þegar niðurstaða er fengin. Kannski hann hefði gert það ef fleiri hefðu sagt já, þá hefði hann getað verið í sigurliðinu. Bæjarstjórinn var hins vegar ekkert að hika við að upplýsa afstöðu sína í öðrum íbúakosningum, þegar kosið var um sameiningu við Voga. Var einhver munur á þessum málum. Var þá í lagi að gefa upp afstöðu sína og hafa þannig áhrif á skoðanamyndum í Hafnarfirði?


Nafnaruglingur

Það lýsti mikilli hugmyndafátækt þegar þá ný verslunarmiðstöð í miðbæ Hafnarfjarðar var nefnd Miðbær. Var þá fólk ekki í nokkrum vafa ef einhver sagðist vera að fara niður í Miðbæ, eða hvað? Stóri stafurinn heyrist að sjálfsögðu ekki og því enginn munur á miðbæ og miðbæ. Eiginnöfn fá sjaldnast fleirtölumerkingu og þegar fólk sagðist hafa verið í miðbænum fór ekki á milli mála hvar fólk var. En þetta virðist vera breytt tíð. 

Ýmsar ástæður urðu til þess að nafni verslunarmiðstöðvarinnar var breytt og var þesi nafnaruglingur ein ástæðan. En það var farið úr öskunni í eldinn og nafnið Fjörður var fyrir valinu. Lengi hafði þesi stytting verið notuð fyrir Hafnarfjörð og Reykvíkingar sögðust gjarnan vera að fara suður í Fjörð. Þá var talað um fólkið í Firðinum sem síðar varð nafn á ljósmyndabókum Árna Gunnlaugssonar.

Ekki hjálpar svo þegar í auglýsingum verslunarmiðstöðvarinnar er talað um Fjörðinn þótt nafnið sé eintöluorð. Þetta hafa margir svo apað eftir, nú síðast í útvarpsþætti Hjálmars Sveinssonar á Rás 1 í morgun. Þar talar Hjálmar um Fjörðinn og á við verslunarmiðstöðina á meðan viðmælandi hans, Jónatan Garðarsson notar réttilega eintölumyndina Fjörð. Reyndar var þetta ekki eini nafnaruglingurinn í þættinum því Hjálmar talaði um Reykjavíkurveg þegar hann var að tala um Hafnarfjarðarveg. Reykjavíkurvegur nær aðeins frá Strandgötu að Engidal, gatnamótum Álftanesvegar, Reykjavíkurvegar, Fjarðarhrauns (Kanavegarins eða Keflavíkurvegarins) og Hafnarfjarðarvegar. Þó þessi útvarpsþáttur hafi verið nefndur hér skal ekki varpa neinni rýrð á hann sem slíkan, áhugasamur þáttur um málefni bæjarins.


Blettaskipulag og háhýsi

„Heildstæð stefna“ er vinsælt hugtak meðal stjórnmálamanna ekki síst hér í Hafnarfirði. Því miður virðist þetta að mestu vera bara hugtak því oft finnst manni að vanti framtíðarsýn fyrir Hafnarfjörð. Enn á ný er farið að „blettaskipuleggja“ miðbæinn. Nú á að hverfa frá gildandi skipulagi sem gerir ráð fyrir 4 hæða húsi þar sem Kaupfélagshúsið stóð áður við Strandgötuna. Þar á nú að koma 3 hæða hús út við Strandgötuna en það á síðan að skaga 10 hæðir upp með tveimur turnum og 46 íbúðum.

Hver hefur markað þessa stefnu? Af hverju er deiliskipulagið eins og það er? Það er mikill munur á 4 hæðum og 10 hæðum. Reyndar vildi verktakinn byggja 12 hæðir og kynnti samanburðinn við 10 hæðirnar, svo þetta liti nú vel út - lægra en eitthvað annað - sniðugt!? Skuggavarp og ekki síst vindstrengir sem myndast gætu við slíkt háhýsi var slíkt að ákveðið var að reyna við 10 hæðir. Samt sem áður þarf mótvægisaðgerðir til að hindra að hættuástand skapist ekki í miklu roki.

Á forstigskynningarfundi um málið var m.a. íbúi í Gunnarssundinu. Lítið má hann sín gegn gapandi risanum sem lokar hreinlega fyrir Gunnarssundið - og stelur af þeim sólinni.

Af hverju þurfum við að vera að rífast um hæð á einu húsi? Á ramminn ekki að vera nógu skýr? Margoft hef ég hvatt bæjarfulltrúa hér í bæ að setja af stað hugmyndasamkeppni um framtíðarútlit miðbæjarins. Þá fengist örugglega spennandi hugmyndir sem mætti þróa áfram og fá nokkuð nákvæma áætlun til að vinna eftir. Það fæst líf í miðbæinn með öðru en háhýsum. Látum ekki græðgina hlaupa með okkur í gönur.


Hvaða tölum á að trúa

Nú fer að líða að því að Hafnfirðingar verði að gera upp hug sinn um stækkun álversins. Upplýsingar flæða yfir okkur en það er svo skrýtið að þær hjálpa sáralítið. Hagfræðistofnun Háskólans gerir tvær skýrslur, fyrir Hafnarfjarðarbæ og Alcan. Sömu tölur og forsendur notaðar en mismunandi tölur birtar. Andstæðingar segja ábatann lítinn skv. skýrslunni fyrir Hafnarfjarðarbæ en þar er átbatinn sýndur sem mismunur á tekjum sem bærinn hefði ef af stækkun verður á móti tekjum sem bærinn hefði af annarri starfsemi sem yrði á þeirri lóð sem stækkunin hefði orðið á. Þetta er eðlilegur samanburður en segir mér samt ekkert um ábatann! Ef álverið verður stækkað verður samt byggt á iðnaðarsvæðinu í kring og af því hefur bærinn tekjur. Þær tekjur eru ekki með í samanburðinum. Tölur má nota á alla vegu sem sést best á því að hagurinn hefur verið sýndur frá 100 milljónum upp í 1400 milljónir. Hverju eigum við svo að trúa.
Þetta segir mér að þessi kosning byggist mest á tilfinningalegum skoðunum fólks fremur en skoðunum byggðum á tölulegum upplýsingum um hag og mengun. Hins vegar er það skondna við þessar kosningar að álverið hefur þegar starfsleyfi fyrir 460 þúsund tonn, hafði starfsleyfi fyrir 200 þúsund tonnum og gæti Alcan framleitt 460 þúsund tonn með því að endurnýja búnað í núverandi húsnæði þyrfti ekkert nýtt skipulag og þá yrði engin kosning enda er bara verið að kjósa um það hvort senda eigi tillögu að deiliskipulagi í eðlilega málsmeðferð þar sem hægt er að gera athugasemdir með rökum. Í komandi kosningum er hins vegar ekki spurt um rök, þannig er íbúalýðræðið í Hafnarfirði í dag.

Af hverju að versla í Hafnarfirði?

Það kom mér á óvart á fundi Samtaka atvinnulífsins í Hafnarborg fyrir skömmu hversu lágt hlutfall verslunar væri af atvinnulífi bæjarins, hlutfallið var lægra en landsmeðaltal. Af hverju er ekki öflugri verslunarstarfsemi í bænum? Af hverju er ekki gróska í miðbænum? Verslunareigendur höfðu í annað sinn lengur opið á fimmtudögum til að krydda miðbæjarlífið. Fjarðarpósturinn lá ekki á liði sínu og sagði myndarlega frá því þegar fyrst var lengur opið og verslunareigendur voru ánægðir með viðbrögðin. En þegar kom að því að auglýsa lengri opnunartíma fannst hafnfirskum verslunar­eigendum greinilega ekki nokkur ástæða að leita til bæjarblaðsins, nei, það er greinilega betra að versla í Reykjavík og betla um styrk til bæjarins. Verslunareigendur í Firði sögðu að það hefði verið steindautt, ekkert að gera. Skyldi engan undra. Af hverju ættu almennir bæjarbúar að versla í Hafnarfirði þegar verslunar­eig­endurnir sjálfir fara annað? Kannski það eina sem bjargi verslun í Hafnarfirði verði áframhaldandi umferðateppur á leið til Reykja­víkur. Þá eigum við ekki annarra kosta völ.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband