Móðir mín lést í dag

margret GudnadottirMamma, Margrét Guðnadóttir lést í morgun. Eru þá báðir. foreldrar mínir fallnir frá en pabbi lést 22. ferbrúar 1999.

Mamma fæddist í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð 9. janúar á því merkisári 1930, dóttir hjónanna Guðna Markússonar frá Kirkjulækjarkot, trésmiðs og prédikara og Ingigerðar Guðjónsdóttur frá Brekkum í Hvolhreppi.

MG Mulakot 48Hún var sjöunda barn foreldra sinna en alls urðu börnin níu. Aðeins fjögur þeirra er nú eftir, farin eru Ninni, Maggi, Grétar og Dídí auk mömmu. Á stóru heimili var mikið að gera og mamma gekk til þeirra starfa sem til féllu hvort sem það var matseld eða fatasaumur. Mamma fór í Húsmæðraskólann í Hveragerði og útskrifaðist þar. Hún gegndi fjöldi þjónustustarfa, var 18 ára ráðskona á Tumastöðum, starfaði við þjónustustörf í Tryggvaskála en eftir að hún giftist föður mínum 23. júlí 1953 tók saumaskapurinn fljótt að verða hennar mesta starf fyrir utan að ala okkur Elínu systur upp sem var ærin starfi. Þau bjuggu í Danmörku í um 2 ár þegar pabbi lauk námi í rafmagnsverkfræði og komu heim í ársbyrjun 1956 rétt áður en Elín fæddist og þegar ég kom til sögunnar árið 1957 bjó fjölskyldan að Lindarhvammi 9 í Kópavogi. Þaðan lá leiðin á Kársnesbraut 13 og bjuggum við þar í eitt ár þangað til við fluttum í bílskúrinn í eigin húsnæði að Brekkuhvammi 4 í Hafnarfirði og þar átti ég 5 ára afmæli mitt.

MG Fruggur 2004Tvinni og títuprjónar eru samofnir æskuárum mínum mamma saumaði nær öll föt á okkur auk þess að sauma fyrir aðra. Ingunn fæddist svo 1967 og fjölskyldan var þá komin í endanlega stærð. Eins og ætlast er til af mömmum, var hún alltaf til staðar, tilbúin til að hlusta, gefa okkur mjólk og köku, þerra tárin og að telja í okkur kjark. Ekki ber skuggi á minningar mínar af mömmu og er ég ævarandi þakklátur henni og stoltur að hafa átt slíka mömmu.

Á mínum unglingsaldri fór hún meira að sinna verslunarstörfum, starfaði í Hafnarborg á meðan þar var verslunarrekstur, seldi hljómflutningstæki og raftæki hjá Einari Farestveit þar til hún réð sig á Skattstofuna við Suðurgötuna þar sem hún starfaði þar til hún hætti að vinna.

MG GJ Brekkuhvca63Mamma var listakona á mörgum sviðum, ég er búinn að segja frá saumaskap hennar en hún var snillingur  föndri og á efri árum fór hún að mála og lætur eftir sig fjöldamörg listaverk einnig útskorin, gerð í gleri og útsaumuð. Hún var virk í starfi Félags eldri borgara, var þar í stjórn og virk í starfi, dansi, pútti, málun, glerlist og kórstarfi.

Hún lagðist inn á spítala á laugardegi fyrir hálfum mánuði, kvefuð með hita sem var áhyggjuefni vegna þess hvítblæðis (CMML) sem hrjáði hana en sem hún hafði tekist á við af miklu æðruleysi og dugnaður hennar var aðdáunarverður.

MG nyibud 2005Við öll kveðju mömmu með miklum söknuði og munum nú leitast við að fylla huga okkar af ánægjulegum minningum til að takast á við sorgina sem særir okkur á, þó á góðan máta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbergur O Pétursson

Ég votta þér og fjölskyldu þinni samúð mína.

Kv. Kristbergur

Kristbergur O Pétursson, 25.10.2008 kl. 08:44

2 identicon

Við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur héðan frá Selfossi. Guð blessi ykkur öll.

kv Erling og fjölskylda.

Erling Magnússon (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 10:41

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Guðni.

Votta innilega samúð mína, blessuð sé minning móður þinnar.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 26.10.2008 kl. 01:55

4 Smámynd: Guðni Gíslason

Kærar þakkir öll fyrir veitta samúð.

kv.

Guðni

Guðni Gíslason, 27.10.2008 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband