Lifum í núinu

Nú, þegar líður að jólum, vilja margir gleyma vandamálum þeim sem steðja að íslensku þjóðinni. Neikvæðar fréttir fer illa í fólk ekki síst þegar þeir sem segjast vita betur koma ekki með hreinar tillögur að úrlausnum. Það er ekki nóg að segja að bæta þurfi og leysa skal. Nú þurfa menn að hafa tillögur um það hvernig bæta eigi og leysa eigi það sem aflaga er.

Hér í Hafnarfirði ræða menn um stækkun álversins sem plástur á sárin, sjávarútvegur, sem hefur verið að hverfa í skuggann hér og skipin nánast horfin, getur eflaust verið lyftistöng fyrir mannlífið. Enn er unnið úr fiski hér í bæ þó fæstir viti hvar fiskverkunarhús eru í bænum. Ekki komu fiskréttirnir á afmælisdegi bæjarins upp úr töfrahattinum. Fiskur hefur ekki hækkað í verði í fiskbúðum en meira fæst fyrir útfluttan fisk. Nú ætti að vera hagkvæmt að vinna fiskinn hér enda er vinnuafl ódýrt ef reiknað er í erlendri mynt. Erlendir ríkisborgar sem hér hafa unnið eru margir hverjir farnir. Samviskusamt fólk til vinnu sem verkstjórar sakna. Nú er pláss fyrir Íslendinga eins og í gamla daga og þá er að sjá hvort menn kunni enn að vinna eftir allt góðærið.

Ég átti mig ekki á því hvað eggjakast leysir, ég sé ekki hvernig velja á fulltrúa fólksins, ég sé ekki af hverju öll reiði beinist að stjórnmálamönnum og seðlabankastjóra. Ef menn vilja beina reiði sinni eitthvað þá er það til þeirra sem settu okkur í þessa stöðu. Það á ekki að kenna lögreglu um gæsluleysi þegar maður sem ekur bíl á 200 km hraða veldur slysi. Það er ökumaðurinn sem er ábyrgur.

Sálartetrið okkar þarfnast jákvæðrar hugsunar nú og það er það sem fólk á að einbeita sér að og gleyma ekki að lítil börn hafa eyru. Sálfræðingur Skólaskrifstofu segir okkur að hugsa ekki of mikið um fortíðina né framtíðina, það geti valdið okkur hugarangri. Látum hverjum degi nægja sína þjáningu.

Guðni Gíslason

Leiðari Fjarðarpóstsins 4. desember
www.fjardarposturinn.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband