Börnin okkar eiga að hafa jafnan rétt - óháð kyni - og óháð kynjakvóta

Hvað er jafnrétti, jú, jöfn réttindi til einhverra hluta. Jafnrétti kynjanna er því að konur, jafnt sem karlar hafa sinn rétt óháð kyni. Þýðir það þá að alls staðar eigi að vera jafn margar konur og karlar? Nei, ekki aldeilis. Sjálfur á ég sex stráka og verð seint kærður fyrir brot á jafnréttislögum. Nýverið bárust fréttir af brölti Samfylkingar­manna sem ekki vildu tryggja konu annað af efstu 2 sætunum og gengu þá konur á dyr. Þær ætluðust sem sagt til að kynferði þeirra réði hvar þær enduðu á framboðslista. Er þetta jafnrétti? Nei. Í jafnréttisbaráttunni (lesist kvenréttindabaráttunni) gleymist oft réttur hvers einstaklings. Það er undarlegt að ef ekki á að skipta kyn manna þá þurfi annað kynið að víkja vegna þess að ekki séu jafn margir frá hvoru kyni. Greyið Mörður Árnason varð t.d. fyrir barðinu á þessu. Konur eru að verða í stórum meirihluta í kennarastétt, a.m.k. í grunnskólum. Enginn segir neitt við því þrátt fyrir að þar geti spilað inn uppeldisleg mark­mið. Auðvitað hlýtur að vera eðlilegt að ákveðnar stéttir verði ekki karla- eða kvennastéttir eingöngu og auðvitað hlýtur það að vera jafn áhugavert fyrir konur sem karlmenn að taka þátt í stjórnmálum. En þetta er einstaklingsbundið val og hver og einn hefur líka rétt á að taka ekki þátt.

Aukið fæðingarorlof hefur gefið konum sem vilja taka virkan þátt í atvinnulífinu mun auðveldara fyrir en áður. Nú er frekar viðurkennt að kona í áhrifastöðu taki sér frí vegna barnseigna enda er geysilega mikilvægt að foreldrar geti verið sem lengst heima með börnum sínum. Eðlilegri krafa er að foreldrar verði lengur heima frekar en að hægt sé að koma börnum á leikskóla fyrr. Það er börnunum að jafnaði fyrir bestu. En ekki gleyma að börnin okkar eiga að hafa jafnan rétt - óháð kyni - og óháð kynjakvóta.

Leiðari Fjarðarpóstsins 19. febrúar 2009
www.fjardarposturinn.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband