Hlaupamarkmið 2013

Ég hef hingað til látið ráðast hversu mikið ég hef hlaupið og hver árangurinn hefur verið. Ég hef þó yfirleitt náð væntingum sem ég hef sett fyrir hvert keppishlaup, þó með undantekningum.

Snæfellsjökulshlaupið-056 vef

Það var eyða í Hlaupadagbókinni á hlaup.is undir markmið og einhvernveginn fannst mér ég þyrfti að ská eitthvað. Ekki var þetta vísindalega markmið en markmið engu að síður:

Í ár er stefnt að því að hafa gaman af því að hlaupa sem fyrr, reyna aðeins meira fyrir mér í utanvegahlaupi og stefnt á Snæfellsjökulshlaupið í annað sinn og jafnvel Laugaveginn.

Markmiðið er að hlaupa undir 3.30 klst. í maraþoni, undir 1.35 klst í hálfu maraþoni og hlaupa 10 km undir 43 mín.

 

Til gamans set ég ástundunina í km frá því hlaupavitleysan hófst: 

2010: 465 km (tvö 10 km keppnishlaup)

2011: 1,243 km (nokkur keppnishlaup og fyrsta hálfa maraþonið

2012: 1.705 km (fleiri keppnishlaup, utanvegahlaup, hálft maraþon og fyrsta maraþonið. (tók afrit af Hlaupadagbókinni daginn fyrir hrun) 


Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur!

Nú er nýtt ár gengið í garð. Allir frídagarnir sem ég ætlaði að nýta svo vel fóru í annað en ég ætlaði og kannski í miklu betra, bara letilega tilvist í návist fjölskyldunnar. Svona fara sumarfríin líka en ég hætti aldrei að gera áætlanir. Reyndar er frúin enn duglegri við að gera áætlanir um afrek mín í sumarfríinu enda lifir húnn enn í sannfæringu að ég sé sá sem hún sá fyrir sér þegar við giftumst fyrir nú nær 35 árum síðan. Mér eru áætluð störf til um 100 daga í þessu 4 vikna fríi og er þá ekki talað um ferðalögin sem við eigum að leggjast í. En sem betur fer er ekkert kvartað undan skorti á afrekum og tröllatrúin á afrekum mínum birtist alltaf að ári liðnu. Því er ekki að undra að ég hef svo sem aldrei sett mér háleit markmið í byrjun árs og reynsla mín í síðustu dellunni, hlaupadellunni, hefur frekar sannað að ég geri það sem ég ætla mér ekki að gera. Því hefur árangurinn verið betri en ætla mátti.

Laugarvatn

Í ár liggur margt fyrir og fremst í röðinni er efling á starfi eldri skáta í Hafnarfirði og stofnun nýs skátagildis í febrúar auk þess að fagna 50 ára afmæli St. Georgsgildisins í Hafnarfirði. Gangi það eftir verð ég rórri á hlaupum, því ég þarf fyrir haustið að vera búinn að geta hlaupið heilt maraþon 3 mínútum og 4 sekúndum hraðar en ég gerði á síðasta ári. Markmið mitt er því kannski ekki háleitt um 18,4 sekúndna bæting á hverjum mánuði til haustsins.

Ég ætla líka að slípa parketið og olíubera, smíða arinn, mála stofuna, klæða undir svalirnar, setja tröppur í garðinn, smíða ruslatunnugeymslu, smíða handrið, mála hluta af húsinu, skipta um tímareim í bílnum og eflaust eitthvað fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu. Ég þarf að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur af því að hafa ekki eitthvað að gera en ég veit líka að næsta ár kemur þó ég geri ekkert af þessu.

Mér líkar því alltaf vel skátaheitið sem er mér mjög heilagt: 

 

"Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess,
- að gera skyldu mína við guð og ættjörðina,
- að hjálpa öðrum
- og að halda skátalögin."

 Því er markmið mitt í byrjun ársins: "Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur." 


Hvenær ætlar Mogginn að læra að Hans Lindberg er alíslenskur?

Þegar blaðamenn keppast við að gera annan hvern útlending að Íslandsvin þá geta þeir ekki skilið að sonur tveggja Íslendinga (tveggja FH-inga) er alíslenskur. Hans Lindberg verður áfram íslenskur þó hann sé með danskt vegabréf.

Hún er nóg þvælan sem vellur út úr íþróttafréttamönnum þó þeir þurfi ekki að afneita Íslendingum líka. Kannski ætti að segja flesta íþróttafréttamenn hálf íslenska af þeir geta ekki skrifað eða talað almennilega íslensku?


mbl.is Stefán Rafn innsiglaði sigur Löwen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður á þínum aldri..

Vesturgatan-GG_289_resize

Þegar ég varð fimmtugur fyrir hálfum áratug varð ég rosalega sáttur. Ég var bara mjög sáttur við aldurinn og ég áttaði mig á því að ég var farinn að lifa í núinu því það var ekkert næsta stórafmæli framundan. Enn er ég sáttur og enn er ég fimmtugur þó árunum hafi fjölgað.

Á hlaupunum hef ég alveg verið sáttur að vera elstur eða með þeim elstu og ég hef getað verið sáttur við minn árangur - líka miðað við aldur. Því varð mér nokkuð brugðið þegar mér var sagt í lok hlaupaæfingar um daginn, þegar ég var reyndar gjörsamlega búinn og lá fram á vegg, að ég þyrfti að fara varlega, kominn á þennan aldur!

Á fimmtudaginn var hlaupið rólega af stað frá Kaplakrika með Elíturnar flottar fremstar. Auðvitað tókst mér að fá baul frá þeim, í þetta sinn án þess að segja neitt svo nú veit ég ekki hvort ég eigi að þegja eða tala. Sennilega er ég betri í því síðarnefnda. 

Æfinguna á fimmtudag mátti kalla "lærakvöl í tröppunum" en þá lét hann Pétur þjálfari okkur hlaupa fimm ferðir upp Flensborgartröppurnar, í hverja tröppu og aðra hverja tröppu til skiptis. Efst lét hann okkur ganga 28 skref og setja hnéð niður í hverju löngu skrefi, þá áttum við að beygja hnén, setja hendur í jörðu og hoppa svo - 10 sinnum. Þá var farið rólega niður tröppurnar og neðst tóku við 10 hnébeygjur og svo upp á ný. Lærin loguðu strax eftir fyrstu ferð. Að þessu loknu tók við liðakeppni, 5 ferðir upp tröppurnar, eina tröppu og tvær tröppur til skiptis. 

Þetta var keppnis og ég gaf allt sem ég átti og það skilaði mér hratt upp, þó ekki nógu hratt upp einu sinni þegar stíga átti í hverja tröppu og refsingin var - 10 hnébeygju!

Ef einhver hélt að þetta væri nóg þá tók við hópeflishælalyftur - hópurinn leiddist í hring og hælalyftur tóku við, með fætur beinar, innskeifar og útskeifar.

Mínar orkubirgðir voru uppurnar og mér leið ekki vel, svipað eins og í alvöru endaspretti í stuttu hlaupi. Mér leið illa og hálf lagðist utan í steyptan vegg. Voru Elíturnar ekki komnar umhyggjusamar og hreinlega neyddu mig að beygja höfuðið niður.  Ekki amalegt að hafa þær, hverja með sitt sérsvið. Þær gáfu mér af vatnsbirgðum sínum og sennilega björguðu þær mér frá bráðum íþróttabana.

Ég skrönglaðist svo af stað og strákarnir sögðu að ég væri kominn með nýjan hlaupastíl. Hann lagaðist svo eftir því sem ég hresstist við og ég komst í góðum hópi heill í Kaplakrika.

En þegar þetta er skrifað er föstudagskvöld og lærin eins og steinsteypa. Þrepin í stigunum heima eru allt í einu orðin hærri en vanalega og mér líður best þegar ég forðast óþarfa hreyfingar. En klikkunin í þessu öllu er að ég hef áhyggjur af því hvort ég geti hlaupið á morgun. Hvað er hlaupið í mann?

Þetta leiðir huga minn að því hvað keppnisskap í rauninni sé. Ég hef alltaf haldið að ég væri ekki með mikið keppnisskap af því að ég hef aldrei verið æstur í að taka þátt í keppni. Hins vegar hef ég áttað mig á því að þegar ég er kominn í keppni þá er fjandinn laus. Kannski kallast það keppnisskap þegar skynsemin rýkur út í veður og vind. Kannski er það bara gaman en þegar sagt er við mann að maður þurfi að fara varlega, kominn á þennan aldur, þá er það ekkert gaman lengur, eða hvað??

 


Haustvonbrigði

Hlaupasumrinu er lokið. Þriðja hlaupasumrinu sem hefur verið mér mjög ánægjulegt, ekki síst vegna þess að ég setti persónulegt met í 5 km hlaupi, 7 km hlaupi, 10 km hlaupi, hálfu maraþoni og heilu maraþoni. Léttast var að setja met í maraþoninu vegna þess að ég var að hlaupa þá vegalengd í fyrsta sinn. Engu að síður var ég montinn með tímann minn og bara mjög ánægður með öll þessi hlaup.

Svona fór ég inn í haustið, hafði aldrei hlaupið eins mikið áður, var í hörku formi og bara  mjög ánægður með sjálfan mig - fannst ég vera að standa mig bara þokkalega vel miðað við aldur og fyrri störf. En þá kom bakslagið.

Teygjur hafa aldrei verið mitt uppáhald, sennilega vegna þess að ég hef einhvern veginn ekki komist upp á lag með þær, kann þær ekki nógu vel og man svo ekki hvaða æfingar á að gera hverju sinni. Svo varð mér að ósk minni og hún Þórunn var svo elskuleg að stjórna okkur í teygjum/jóga eftir hlaupin á þriðjudögum.

Kátur og spenntur í bókstaflegri merkingu tók ég þátt en þá kom bakslagið. Ég hef alltaf talið mig sæmilega liðugan, getað sett lófana í gólfið án þess að beygja hnén svo dæmi sé tekið. En þegar Þórunn sat á gólfinu framan við okkur og sýndi æfingar sem ég reyndi að fylgja eftir en þar var hugurinn miklu viljugri en líkaminn sem hreinlega neitaði og sinadráttur og undarlegar tilfinningar gerðu vart við sig á stöðum sem ekki var verið að þjálfa. Þegar ég fann að ég gat ekki hreyft útlimina eins og beðið var um varð ég fyrir miklum vonbrigðum og fannst ég vera orðinn gamall.

Nú var staðan 1-1, 1 fyrir hlaupin og 1 fyrir lélegar teygjur.

En ekki batnaði það. Okkar ágætu þjálfarar fóru að láta okkur gera ýmsar æfingar í bland við hlaupin, æfingar sem ég man ekki að nefna, armbeygjur, magaæfingar, kálfaæfingar, plankann og fl. og fl. Þó að kallinn væri ágætur að hlaupa þá var þetta ekki alveg að gera sig. Ég hef oft gert þessar æfingar  - í huganum - og þær hafa gengið mjög vel. En í alvörunni þá var ég eins og kelling (fyrirgefið elskur ef þið takið þetta til ykkar) ég var bara ekki að meika þetta og það fór í taugarnar á mér. Ég var farinn að kvarta og kveina og montið vegna ágætra hlaupa var fokið út í veður og vind.

Nú var staðan 1-2, 1 fyrir hlaupin gegn 1 fyrir lélegar teygjur og 1 fyrir ömurlegar æfingar.

Reyndar bjargaði hún Þórdís, hlaupakonan mín, mér er hún sagði í dag "og þú hættir þó ekki að tala..." Áttaði ég mig á því að ég gat með stolti sagt að staðan væri 2-2, hlaupin og talandinn gegn teygjunum og æfingunum.

Þá er bara að finna dýnuna sem ég keypti fyrir áratug, teygja og teygja og gera allar magaæfingarnar og þjálfa efri hluta líkamans - upp að munni - þar til staðan verður 4-0 fyrir mér.

Annars var æfingin í dag sérstök, fyrsti snjórinn í vetur og ég, alltof seinn, mátti ekki vera að því að skipta innleggjunum úr léttu sléttbotna skónum yfir í betri skó í svona færð, því ég bjóst við hálku, en þegar ég keyrði af stað var komin snjókoma. Það var hált á brautinni og enn verri urðu æfingarnar fyrir vikið, skítkalt og engin viðspyrna.

En mikið svakalega var þetta þó gott í lokin (ef ég hefði ekki farið að horfa á FH tapa fyrir Akureyri) og sófinn var minn besti vinur í kvöld eftir að strákarnir höfðu eldað matinn. 


Fyrsta maraþonið

Þegar ég byrjaði að hlaupa fyrir 2 árum og 10 mánuðum hvarlaði ekki að mér að ég ætti eftir að hlaupa maraþon. Reyndar var það svo fráleitt enda ætlaði ég hvorki að hlaup 10 km eða hálft maraþon og heilt marþon var ekki til að tala um. Hvað é maður jú að gera á 4 tíma ferð, lesa bók?? En allar áætlanir um hvað ég ekki ætlaði hafa verið brotnar - allar.

Í desember setja Finnur og Þórdís hróðug skilaboð á Facebook að þau séu búin að skrá sig í Berlínar marþon og það sé alveg að fyllast.

Þetta var í miðri jólvertíðinni í Fjarðarpóstinum og ég fékki ekki mikinn tíma til umhugsunar. Ég sat á skrifstofunni og melti upplýsingar og varð að viðurkenn að eftir 2 hálf maraþon, annað í Köln, var ég að hugsa um að taka afstöðu í janúar hvort það væri eitthvað vit í að hlaupa maraþon. Ég skoðaði þetta í klukkutíma, hringdi í konuna og skráði mig.

Nú var ekki aftur snúið. Vetur gekk í garð og sumar og þegar á leið samdi ég við Pétur þjálfara að gera ævingaráætlun fyrir mig. Þjrár vikur voru liðnar af henni þegar ég byrjaði og ég tók þessu nokkuð alvarlega og æfði af kappi og allt gekk vel. Allt þar til að 12 dagar voru í hlauðið og þá hafði ég ekki lent í neinum teljandi hlaupameiðslum frá upphafi. Á brautinni á þægilegu 4.30 tempói fékk ég sting þegar ég hljóp fram hjá nokkrum kvenkyns FH hlaupurum. Nokkrum tugum metrum seinna mátti ég játa mig sigraðan, lengra gat ég í rauninni ekki hlaupið þó einum hring hafi verið bætt við eftir smá teygjum. Viku hvíld og bólgueyðandi lyf voru tekin og ég var orðinn ágætur viku seinna og tvö róleg hlaup tóku við. 

Svo rann upp dagurinn í Berín, frekar kalt um morguninn og mér leið eins og íslenskum víkingi í hlýrabolnum umkringdur af plastlögðum hlaupurum og fáklæddum mönnum með gæsahúð. Svo var ræst og ég hljóp eða öllu heldur labbaði af stað, þvílík var mannmergðin þó við værum ræst nokkru á eftir fyrstu starthópunum. Þetta var rosalega gaman, eins og í tölvuleik, farið var fram úr hverjum á fætur öðrum, hunduð manns og þúsundum manns örugglega. Ég kvaddi Finn í startinu en við höfðum fylgst  að alveg inn í startblokkina. Ég náði að fikra mig inn í F- blokkina þegar blokkirnar voru sameinaðar fyrir annað start, svo ég náði að vinn aðeins  á Þórdísi sem fór af stað í F. Þetta var hrikalega gaman og mér leið rosalega vel.  Þórdís var með hvíta húfu og ég ætlaði að svipast eftir henni þegar á leið hlaupið. Eftir um 4 km kannaðist ég við koll, öllu heldur hreyfingar hans. Ég hljóp upp að hlauparanum og ýtti við honum, þarna var Þórdís á góðu róli. Eftir þetta hlupum við saman með smá hliðarspori og það er hægt að segja það strax að við hlupum saman í mark, hrikalega ánægð, þó háleitasta markmiðið hafi ekki náðst.

Mannfjöldinn var gífurlegur og þetta var eins og í svigi, að komast fram úr fólki fyrstu ca 15 km. Tíminn leið hratt og ég átti ekki orð þegar við vorum búin að hlaupa 10 km. Þetta gekk flott, ég  var með méð mér lítinn brúsa, tæplega 400 ml. með orkudrykk og saup af honum sennilega upp í 20 km án þess að drekka annað en tók þó eitt orkugel. Ég hafði drukki vel fyrir hlaupið og fannst ég ekki getað drukki meira. 

Þa var ærandi að fara í gegnum drykkjarstöðvarnar, hávaðinn þegar fólk traðkaði á plastglösunum var ærandi og þegar orkugel var í boði, urðu skórnir flughálir og allt var á floti. Allst staðar var fólk á hliðarlínunni, hlómsveitir spiluðu, fólk með fána og rosalega gaman. Danski fáninn var áberandi enda yfir 7 þúsund Dani í hlaupinu og danskan heyrðist allan tímann. Kristjana og Kristín voru á hliðarlínunni við 5 km og gaman að fá hvatningu og aftur við ca. 25 km. Einstak aðrir hvöttu okkur og það var mikils virði. Áfram fórum við fram úr fólki og fyrr en varði var hálfu maraþoni lokið á ágætum tíma  um 1:43 og þett lofaði góðu. Við 27 km greip ég tvö orkugel en gáði ekki að braðgtegundinni og aldrei hef ég fengið verra gel. Ég átti eitt af mínum gelum eftir og tók það næst, var vanur þeirri sykurleðju og því var skolað niður með vatni. Nú var orkudrykkur þeginn og þambaður og stundum vatn, en ekki alltaf. Við vorum á flottu róli við 30 km og alveg skv. áætlun. Eftir það fór 3.30 blaðran að hverfa og hraðinn var ekki alveg eins og áður en samt ágætur. Við 32,3 km fagnaði ég nýju meti, hafði aldrei hlaupið svona langt áður. Nú fann maður aðeins fyrir að maður var að hlaupa en ég var í góðum gír. Vinstri löppin, sú sem ég tognaði á, var aðeins að pirra mig, tak í aftari lærvöpva og ökklinn var aðeins að pirra mig en alls ekki afgerandi. Eftir 38 km fór þetta að verða erfitt, fæturnir voru orðnir stífir en pústi var í lagi. Það hægðist á allri þvögunni og maður áttaði sig kannski ekki á því hversu mikið það hægðist á manni. Þórdís þurfti að bregða sér afsíðis og ég hljóp áfram einn. Markmiðið var ekki að nást og lappirnar voru þungar og ég drógst inn í smá depurð en reyndi þó að rífa mig upp úr henni öðru hverju. Við ca. 40 km náði Þórdís mér og stappaði í mig stálinu bara með því að vera þarna og hraðinn jókst og við hlupum saman restina. Eftir nokkra króka sem við þekktum sást í Brandenburgarhliðið, þetta var að verða búið - HEILT MARAÞON. Hraðinn var aðein aukinn og við hlupum saman í mark svo ekki munaði nema 2 sekúndum. Rosalega góð tilfinning. 

En þá tók alvaran við. Ekkert vatn að fá í markinu og okkur skipað áfram. Ég riðaði hreinlega og fann að lappirnar voru alveg búnar. Aldrei hafði ég áður fundið mig svo skíran í kollinum í keppnishlaupi áður, því oftast fer maður í einhvern gír og verður flökurt þegar maður lítur á úrið - en ekki núna. Við skröngluðumst, spáðum í að setjast niður á fyrsta grasbala en hugsunin um matarpokann dró okkur áfram. Á leiðinni var með erfiðismunum farið upp á kantsteininn að næstu girðingu og teygt. Matarpokinn olli miklum vonbrigðum. Vatn, smá brauð, epli og banani, þurrt orkustykki og kex. Allt var étið og ég náði mér í banana og te til viðbótar.

Ég ætla ekki að lýsa ferð um svæðið eftir fatapokanum og leit að staðnum sem gróf tímann og nafnið mitt á peninginn og leit að eiginkonunni. Allt þetta tók sinn tíma en um síðir sameinaðist hópurinn að undandskildum Halla og komið var við á næsta veitingastað, svo var haldið heim, dottað í baðkarinu og svo út að borða.

Nú eru augnlokin að síga hratt niður enda var síðasta nótt mikil andvökunótt þó nokkrir draumar hafi sannað að ég sofnaði eitthvða. Ég er hrikalega ánægður og stoltur af góðu dagsverki. Það er yndislegt að vera með þessum góða hóp en annað kvöld förum við Kristjana og Halli heim en hin spóka sig í Berlín og láta sér leiðast meðan við Halli getum sagt frægðarsögurm hverjum sem vill heyra og hinum líka.

Góða nótt. 


Marþon framundan - fyrstu hlaupameiðslin

Eftir tvö ára og átta mánuði hlaupandi með hinum bráðskemmtilega Hlaupahópi FH fann ég loksins til tevatnsins. Þangað til hafði ég tæpast fundið fyrir öðru en harðsperrum og smá beinhimnubólgu.

Kannski er líkaminn farinn að stressast yfir maraþoninu sem er eftir 12 daga.

Ég var að hlaupa 5x 1600 m "spretti" eftir 2 km upphitun. Á þriðja hringnum sem við Þórdís hlupum saman nálguðumst við þrjár stúlkur og á klukkunni sé ég að hraðinn hefur aukist þegar ég fór fram úr þeim. En um leið og ég hljóp meðfram stúlkunum fékk ég sting - ekki í hjartað - heldur í nárann. Hélt ég í fyrstu að þetta væri tilfallandi og hélt áfram en stuttu síðar varð ég að hætta. Það var skrítin tilfinning að hálf haltra og í raun vildi ég ekki trúa þessu. Ég skokkaði svo einn hring og hélt mig klárann og hljóp af stað á 1/2 maraþonhraða. Ég færði mig meira fram á tærnar og þetta var að virka. En eftir tæpan hring áttaði ég mig á því að svo var ekki og ég varð að viðurkenna tognun í nára.

Stór kælipoki var lagður á nárann og lærið nánast fryst. Ein voltarin rabid og aftur kælt fyrir svefninn. Síðan kunni ég ekki meira og treysti á að allt lagist af sjálfu sér og ég hleyp ekkert á meðan og ætla að vera klár í maraþonið í Berlín 29. sept.

Hvað er verið að trufla mann með svona meiðslum? Kannski er verið að segja manni að gera eitthvað meira en að hlaupa! 


Af hverju afneitar Mogginn honum til hálfs?

Af hverju getur mbl.is og Morgunblaðið ekki leyft Íslendingnum Hans Óttari Lindberg að njóta sannmælis?
Hans Óttar á íslenska foreldra, Hafnfirðinga sem báðir léku með FH á unglingsaldri. Hann er fæddur í Danmörku en verður ekki danskur við það frekar en minn sonur. Hins vegar kaus hann sér danskan ríkisborgararétt og getur talið sig Dana - en íslenskur verður hann alltaf.
mbl.is Lindberg hetja Hamburg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stýrið eða skrúfan??

Hvað er rétt í þessari frétt? Datt stýrið af eða skrúfublað?
".. Skrúfa og vél skipsins voru í lagi en skrúfublaðið reyndist dottið af..."
mbl.is Stýrið féll af á leið út ósinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skátaaðferðin

Ég, ásamt um 25 skátaforingjum, sat kynningarfund í Hraunbyrgi á nýju dagskránni fyrir skátana sem ber það einfalda nafn skátaaðferðin. Ekki ætla ég að taka afstöðu til hennar enda veit ég ekki nægilega mikið ennþá auk þess sem við sáum aðeins bækur fyrir yngsta skátahópinn, drekaskáta. Fyrir þá sem lítið vita um skátastarf þá kallast jú yngstu skátarnir drekaskátar, næsti aldurshópur, drekaskátar, unglingarnir dróttskátar og eldri unglingar roverskátar. Svona í grófum dráttum.

Það sem mér, sem verandi orðnum gömlum ref í skátastarfi, fannst mest gaman var umræðan sem spratt upp um grundvallarmarkmið skátastarfs og raunveruleikann í skátastarfi. Ekki síst umræðuna eftir fundinn við unga skátaforingja. Mér fannst ég upplifa svolítið gamla tíma og sannan áhuga og minnti mig svolítið á upplifun mína af umræðu dróttskáta í Botnsdal 1972 þar sem Gutti, Guðbjartur Hannesson (nú ráðherra) bar höfuð og herðar yfir aðra í umræðunni.

Það var mikið rætt um aðkomu fullorðinna skáta í skátastarfið, fullorðinna sem höfðu upplifað skátastarf og áttu góðar minningar. Hvernig ná má betur til þessa fólks, gefa því tækifæri á að fylgjast með, taka þátt sér til gamans og skátunum til gagnst. Sennilega er alltof lítið leitað til eldri skáta um ýmislegt smálegt í skátastarfi, aðstoð við hluta úr fundi, útilegu, verkefni eða hvað annað þar sem þekking eldri skátans nýtist vel. Það þarf ekki alltaf að gleypa þá fullorðnu með skó og húfu.

Það var líka gaman að fylgjast með Hraunbúanum Ólafi Proppé sem kominn er á eftirlaun og hefur gefið sig allan í þetta verkefni fyrir skátahreyfinguna. Emaleraða heiðursmerkið frá Hraunbúum hékk í skátaskyrtunni, hann var með Gilwell klútinn sinn og geislaði af áhuga og maður fann að hann byggði mikið á reynslu sinni úr góðu skátastarfi fyrr á árum. 

Fundinum lauk með því að sunginn var bræðralagssöngur skáta, allir saman í hring og tókust saman hönd í hönd og stemmningin flott. En það var ekki fyrr en löngu síðar, þegar klukkan var farin að ganga í tólf þegar við komumst út í bíl til að koma okkur heim.

Mér fannst kvöldinu vel varið og vonandi á fólk eftir að sjá betur hversu gríðarlega mikilvægt uppeldisstarf skátastarfið er - starf þar sem ævintýri og gleði ræður ríkjum.

Ávallt viðbúinn! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband