Tengdapabbi er líka dáinn

Við jörðuðum mömmu í gær og nú í dag, á 12 ára afmælisdegi Jóns kvaddi tengdafaðir minn, Ásgeir Beck Guðlaugsson þennan heim. Ekki voru nema þrjár vikur á milli þeirra í aldri.

Ásgeir Guðlaugsson, f. 18.12.1929, d. 1.11.2008Tengdapabbi greindist með Alzheimers sjúkdóminn fyrir all nokkrum árum síðan og hefur þessi skelfilegi sjúkdómur nú tekið hann frá okkur. Við sjúkdóminn breyttist persóna hans og hann var ekki sá sem við þekktum hann áður. Æ meir dró af honum og svo var komið að hann var kominn alfarið á öldrunardeild á Landakotsspítala og hann þekkti engan. Tengdamamma stóð við hlið hans alla tíð, sinnti honum og hjúkraði oft við erfiðar aðstæður. Því er vart hægt að lýsa hversu mikið er lagt á maka þeirra sem fá þennan sjúkdóm. Hún reyndi ávallt að sjá hið bjarta í lífinu og sinnti honum af miklum kærleika. Stuttu eftir andlát móður minnar fór að draga af honum og hann lagðist í rúmið, hann var nýfarinn að fá sterk deyfilyf við verkjum og síðustu dagana svaf hann að mestu, alveg úr sambandi við aðstandendur sem voru hjá honum öllum stundum.

Ég kveð nú ástkæran tengdaföður sem á svo margt að gjalda og ég minnist hans með gleði og ástúð. Fjölskyldan stendur þétt saman og syrgir. Ásgeir er hvíldinni feginn, hafði fengið að þjást nóg og nú hefur hann fengið hvíldina.

Ásgeir var fæddur í Hafnarfirði 18.12.1929, sonur hjónanna Guðlaugs Ásgeirssonar, sjómanns og Valgerðar Hildibrandsdóttur, verkakonu. Hann missti föður sinn ungur og fór á unglingsaldri að vinna fyrir fjölskyldunni og gerðist matsveinn til sjós. Hann var til sjós þar til hann hitti Arndísi Lilju Níelsdóttur sem síðar varð konan hans og eignuðust þau 6 börn en eitt þeirra fæddist andvana. Fyrir átti Ásgeir einn son. Barnabörn Ásgeirs eru 20 og 3 barnabarnabörn.

Ásgeir starfaði með tengdaföður sínum í Timburverslun Árna Jónssonar og varð síðar framkvæmdastjóri þar. Hann starfaði síðan sjálfstætt við innflutning en lauk starfsferli sínum sem forstöðumaður íþróttahúss fatlaðra. Ásgeir var mjög virkur í félagsstarfi, starfaði m.a. mikið fyrir ÍR og Íþróttabandalag Reykjavíkur auk þess sem hann var virkur Kiwanisfélagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbergur O Pétursson

Votta þér og þínum samúðar.

Kv. Kristbergur

Kristbergur O Pétursson, 1.11.2008 kl. 17:58

2 Smámynd: Guðni Gíslason

Sæll, ég man eftir honum afa þínum, ég hitti hann á ættarmóti á Hvolsvelli. Hann var bróðir ömmu.

Guðni Gíslason, 1.11.2008 kl. 23:01

3 identicon

Við vottum ykkur innilega samúð.

Kær kveðja frá Selfossi, Erling og fjölskylda

Erling Magnússon (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 16:20

4 Smámynd: Helga Linnet

Ég votta þér og þínum samúðar. Ég fann þig ekki þegar ég var að kveðja við jarðaför móður þinnar en hitti Kristjönu.

Meira hvað á ykkur er lagt þessa dagana.

Helga Linnet, 12.11.2008 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband