Getum ekkert annað gert en að bretta upp ermarnar og vinna

Enn vitum við ekki hver lendingin verður í fjármálum þjóðarinnar. Gengið verður sett á flot og vonast er til að plástrarnir haldi á meðan sárin gróa en flestir búast við að krónan taki dýfu en allir vona hið besta. Nú sjáum við vel hvað jafnvægi er mikilvægt. Óeðlilegur uppgangur hefur ekki haft góð áhrif undanfarið og sparnaðurinn nú leiðir af sér samdrátt og atvinnuleysi þar sem áður var erfitt að fá fólk í vinnu. Öfgar eru aldrei af hinu góða og enn sannast máltækið að sígandi lukka sé best. Á meðan ekki fæst gjaldeyrir og fólk heldur fast í pyngjuna leita menn ráða við að versla ódýrt og selja það sem hægt er að losna við. Mikil ásókn er í húsin í jólaþorpinu og uppselt til jóla og sömu sögu er að segja af Kolaportinu. Nýr markaður við Kaplahraun verður opnaður um helgina ef leyfiskerfið leggur blessun sína á það og þar verða tugir bása og þar geta einstaklingar og fyrirtæki selt vörur sínar.

Kannski er núna loksins verið að kenna Íslendingum að spara. Strætó fagnar fjölgun farþega og bílaumferð minnkar og fólk ekur hægar en fyrr. Allt er þetta af hinu góða en ástæðan er grátleg. Fjárfestingafyllerí byggt á sandi skapaði auðmenn sem byggðu fleiri skýjaborgir sem féllu svo hver af annarri. Eftirlitsstofnanir sváfu, stjórnmálamenn sváfu en samt keppast allir við að segja, „hvað sagði ég“! Þeir sem sögðu þetta allt hrynja töluðu flestir af meiri öfund en fyrirhyggju og hefðu sjálfir spilað með hefði þeim verið afhent spil. Eftir sitjum við með framtíðina framundan og getum ekkert annað gert en að bretta upp ermarnar og vinna.

Leiðari Fjarðarpóstsins 27. nóvember 2008
www.fjardarposturinn.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

en samt keppast allir við að segja, „hvað sagði ég“! Þeir sem sögðu þetta allt hrynja töluðu flestir af meiri öfund en fyrirhyggju og hefðu sjálfir spilað með hefði þeim verið afhent spil. Eftir sitjum við með framtíðina framundan og getum ekkert annað gert en að bretta upp ermarnar og vinna.

Ég vil mótmæla þessum orðum þínum harðlega, Guðni. Við sem sögðum að þetta gengi aldrei svona til lengdar og allt myndi hrynja sögðum það ekki af öfund. Við vorum hins vegar sökuð um öfund! Og vitanlega hefðum við getað spilað með....tekið stór lán, keypt fínan bíl, farið í lúxusferðir til útlanda. En við bara gerðum það ekki og ástæða þess var ekki öfund heldur sú að við trúðum ekki á þá galdramennsku sem var í gangi: Ímyndað ofurverð á hlutabréfum og auðfengið lánsfé á ofurvöxtum, sem voru náttúrlega byggðir á stýrivaxtavitleysunni þeirra í Dimmuborgum....! Kannski hefði ég átt að hafa fornafnið "ég" í stað "við". En samt....

Þorgrímur Gestsson, 28.11.2008 kl. 12:18

2 Smámynd: Guðni Gíslason

Sæll Þorgrímur. Það er nú svo með fullyrðingar, það eru alltaf til undantekningar. Reyndar sagði ég "flestir". Ég hef hins vegar ekki séð hjá meginþorra þeirra sem sögðu "ég sagði það" nein haldbær rök sem studdu þeirra fullyrðingar þá. Það er mjög auðvelt að segja að þetta geti ekki gengið til lengdar án þess að benda á það sem færi úrskeiðis. Ég man ekki eftir neinum sem sem benti á að lausafjárkreppa yrði í heiminum. Hún er kveikurinn sem velti íslensku útrásarvíkingum sem treystu á að fjárstreymið væri stöðugt.

Hins vegar er munur á mönnum. Sumir höfðu einbeittan brotavilja og dugir að nefna eiganda Sterling. Aðrir reyndu og vissu ekki betur. Það má segja um stjórnmálamenn, eftirlitsstofnanir og fleiri. Það brostu allir (skiljist "næstum allir"). Allir sem tóku myntkörfulán máttu geta búist við lækkun íslensku krónunnar. Þeir tóku meðvitaða ákvörðun burt frá því sem þeim var ráðlagt. Flestir þeir sem töpuðu ætluðu sjálfir að græða í "góðærinu". Nei sígandi lukkan er best!

Eigðu góðar stundir.

p.s. Ég saknaði þín á útgáfuteitinu hjá Björgvini, þegar ég mætti.

Ég sá ekki miklar umfjallanir blaðamanna um undarlegar verðbreytingar á hlutabréfum við minnstu viðskipti sögunnar. Svona hefur þetta lengi gengið án afskipta. Aldrei var gerð athugasemd við þessa handstýrðu markaði. Menn sigldu með í peningastraumnum.

Guðni Gíslason, 28.11.2008 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband