Myndir úr rokinu í Hafnarfirði

Ásvellir 7Fjarðarpósturinn var á vettvangi í Hafnarfirði í rokinu og verst var rokið á Völlum og á Reykjanesbraut. Girðingar, vinnupallar og fleira lauslegt gáfu sig á Norðurbakkanum þó svo veðrið virtist mun skaplegra þar. Í Áslandi 3 höfðu dokaplötur og mótaflekar og fleira lauslegt fokið og efst í hverfinu fauk vandaður vinnuskúr á hliðina og lokaði götunni. Á Hvaleyrarholti losnaði kjölur á þaki á blokk við Dvergholt enda sogkrafturinn geysilegur í svona veðri á lágreistum þökum. Á Völlum fauk ýmislegt smálegt um allt hverfið, þakplötur losnuðu af þökum og girðingar féllu. Þá fuku auglýsingaplötur af auglýsingaskiltum við Ásvelli.

Sennilega fauk mest smálegt þar sem húseigendur eða verktakar hafa ekki hirt um að ganga snyrtilega og tryggilega frá á byggingarstöðum.

Sjá ljósmyndir í myndaalbúmi Ljósmyndir: © Guðni Gíslason - www.fjardarposturinn.is


mbl.is Slæmt ástand í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dásamlegt að geta unnið á jöfnu

Það á bara að kasta úr glerhúsi. Skemmtileg frétt. Hvernig er hægt að vinna 26-26?
mbl.is Haukar náðu fjögurra stiga forskoti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaman en tap í Útsvari

Það var súrt að tapa í Útsvari, sérstaklega þar sem við þurftum bara að svara einni af þremur síðustu spurningunum og náðum ekki að nýta okkur hjálp Gísla Ásgeirssonar, símavinar okkar. Við getum þó verið hreykin af fyrri hlutanum, hann gekk mjög vel, ekki síst "Actionary"spurningarnar þar sem við skoruðum fullt hús. Leikhæfileikar Bjarkar nutu sín og við Sævar Helgi sýndum mikla getvisku. Nýsköpunarstjórnin setti okkur út af laginu og stigin létu á sér standa í lokin og reyndar fékk hvorugt liðið stig í stóru spurningunum í lokin.

En keppnin var skemmtileg og mjög gaman að keppa við Skagamenn. Til hamingju Skagamenn og takk fyrir drengilega og umfram allt bráðskemmtilega keppni. Þökk til þáttastjórnenda og spurningahöfundar (þó við hefðum í lokin kosið spurningar sem hentuðu okkur betur :)

Utsvar-Akranes-FP 

Lið Akurnesinga: Bjarni Ármannsson, Sigrún Ósk Kristjánsdóttir og Guðríður Haraldsdóttir. (Ljósm.: Guðni Gíslason)

Utsvar-Hafnarfj-FP

Lið Hafnarfjarðar: Guðni Gíslason, Björk Jakobsdóttir og Sævar Helgi Bragason. (Ljósm.: Jakob Guðnason)


Útsvar í kvöld

Hafnfirska liðið hittist í fyrsta sinn í hádeginu í dag. Verkaskipting var ákveðin, Björk Jakobsdóttir leikur, Sævar Helgi Bragason hleypur og svarar spurningunum svo það var lítið eftir handa mér að gera. Greinilegt er að liðið var ekki valið til sigurs, þá hefði ég örugglega ekki verið valinn í liðið. Ég gat ekki annað en sagt já þegar mér var boðið að vera með - svona tækifæri til frægðar fæst ekki aftur. Sagt er að ef við vinnum í kvöld, gleymist það fljótt en ef við töpum, gleymist það aldrei og okkar eina leið til að komast hjá háði og skömm er að fela okkur í búningum Grýlu og jólasveinanna í Jólaþorpinu.

En við erum ekki að fara í keppnina til að tapa, ég hlakka til að keppa við Akurnesinga, mér er alltaf hlýtt til þeirra og á góðar minningar frá ferðum mínum á Skagann og hef kynnst þar mörgum góðum skátavinum. Sennilega varð hugtakið Hafnarfjarðarbrandari til á Skaganum þegar skátar skiptust á Skaga- og Hafnarfjarðarbröndurum. En það er önnur saga og skemmtileg.


Hrós til menntamálaráðherra

Nú er ég stoltur af menntamálaráðherra - að þora að segja það sem flestir hugsa. Það á enginn að geta krafist þess að vilji meirihlutans eigi að víkja fyrir minnihlutanum. Við erum öll jöfn en samt öll mismunandi, það ber að virða en til þess þarf ekki að steypa öll í sama form.

Ég er reyndar búinn að fá mig svo fullsaddan af þessum samtökum, Siðmennt, og ég tel þau skemmandi fyrir þjóðina. Ef einhver vill ekki láta ferma sig, þá er það sjálfsagt mál. Ef menn vilja láta búa til aðra athöfn í staðinn, þá fer skilningur minn minnkandi og þegar fólk notar sama hugtak, fermingu og bætir borgaraleg fyrir framan þá er ég hættur að skilja og upplifi það sem árás á fermingu sem svo mörg trúfélög og kirkjur hafa notað. Kannski samkeppnisyfirvöld ættu að fjalla um þetta eins og deilur um nöfn á leigubílastöðvum.

Ef börnin okkar fara með Faðir vor eða aðra bæn í upphafi skólatíma þá er það hið besta mál ef skoðanir þeirra, sem ekki aðhyllast Kristni eða einfaldlega vilja ekki vera með, eru virtar. Látum ekki traðka á skoðunum okkar.

Það er engin siðbót í Siðmennt.


mbl.is Ráðherra segir Siðmennt misskilja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegir tónleikar

Mikið óskaplega voru þetta skemmtilegir tónleikar. Kim var frábær og ungu strákarnir með honum flottir og frábærir tónlistarmenn. Auðvitað saknaði maður nokkurra laga og greinilegt að ég hafði upplifað hann fyrr en ýmsir í kringum mig sem trylltust þegar lög sem ég hafði sennilega aldrei heyrt voru spiluð. Umgjörð tónleikanna var flott, lýsingin með því besta sem ég hef séð og nýja höllin flott. Hins vegar eru umferðarmál þarna í algjörum ólestri og vart hægt að bjóða upp á tónleika þarna með þessa einu aðkomuleið. Tak Kim Larsen og Kjukken.
mbl.is Kim Larsen hélt uppi fjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlilegt því nafngjöf og skírn er alls ekki það sama

Það hlýtur að vera ánægjuefni fyrir kirkjuna ef að er skilið nafngjöf og skírn. Þeir sem gefa börnum sínum nafn t.d. við fæðingu taka þá sjálfstæða afstöðu til barnaskírnarinnar sem er skírn í nafni föður, sonar og heilags anda eins og Jesús mælti fyrir í Mt. 28.18-20. Hins vegar geta menn svo deilt um það hvort nauðsynlegt sé að gera það þegar barn er ómálga frekar en á unglingsaldri þegar barnið getur sjálft tekið afstöðu til skírnarinnar. Að vísu notar lúterska kirkjan skírnina til að taka barnið inn í kirkjuna.

Og munið elsku vinir að Ríkið - það erum við sjálf. 


mbl.is Börnum sem fá nafn við skírn í þjóðkirkju fækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minningartónleikar um Rúnar Brynjólfsson

Fimmtudaginn 8. nóvember kl. 21 verða haldnir í Hafnarborg minningartónleikar um Rúnar Brynjólfsson í anda hinna vinsælu djasskvölda skátanna, „Djass fyrir alla".

Rúnar var mikil driffjöður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og og voru djasskvöldin þar engin undantekning. Hann hafði unun að djassi og var mjög liðtækur gítarleikari og söngvari. Það var unun að vera með honum þegar hann var að rifja upp gömul skátalög og þar voru kröfur gerðar til réttra gripa, ekki bara vinnukonugripanna.

Djass fyrir alla var einstök tónleikaröð í Hafnarfirði og var geysilega vel sótt enda komu þar fram margir bestu tónlistarmenn landsins. Fjölbreytnin var mikil og allir fengu eitthvað við sitt hæfi.

Á fimmtudaginn verða þessir taktar rifjaðir upp með Carli Möller, Jóni Möller, Birni Thoroddsyni, Guðmundi Steingrímssyni og Birni Sveinbjörnssyni auk þess sem Vigdís Ásgeirsdóttir syngur.

Þetta verður örugglega gríðarlega skemmtilegt kvöld í minningu góðs vinar.

djassfyriralla


Rússlandsferð - Forspá?

Skemmtileg villa í fyrirsögninni eða er þetta kannski forspá um framtíð Pútíns?

ps. fyrirsögnin var reyndar leiðrétt snarlega.


mbl.is Óvíst hvort af Íransferð Pútíns verður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott fyrir gróðurinn

Loksins fór að rigna. Eftir að hafa verið upptekinn við mótauppslátt og moksturs á lóðinni hjá mér í blíðskaparveðri fór að rigna. Þetta var líka alvöru rigning, hellirigning beint niður. Mér var strax hugsað til birkiplantanna sem ég gróðursetti hér í hlíðinni fyrir neðan lóðina mína. Síðan þá hafði ekkert rignt fyrr en nú. Annars er saga að segja frá þessum birkiplöntum. Ég hitti Bödda garðyrkjustjóra bæjarins og spurði hvort ég mætti ekki eyða lúpínunni sem væri að vaxa upp í brekkunni. Sagði hann það sjálfsagt mál og gekk ég þá á lagið og sagði að eðlilegast væri að planta birkiplöntum í brekkuna. Taldi hann það vel við hæfi. Ég sagði að ég skyldi meira að segja setja þær niður ef hann kæmi með nokkra bakka og sá ég mig fyrir mér með plöntustaf í brekkunni. Tók hann vel í það og tveimur dögum síðar, er ég kom heim, var óvenju grænt í innkeyrslunni og var Böddi þá búinn að senda til mín 20 myndarlegar birkitré í pottum svo ekki dugði einn plöntustafur og skóflan var sótt. Það tók okkur feðgana ekki nema hálfan annan tíma að koma plöntunum niður og klippa lúpínuna niður en ég var hálf hræddur um að þær dræpust í þurrkinum sem á eftir kom. Þær virðast þó flestar lifandi og vonandi hefur rigningin gert þeim gott og innan fárra ára verða þetta orðnar myndarlegar plöntur og miklu fallegri en sjálfsáðu víðiplönturnar sem vaxa þarna eins og arfi og þarf að klippa reglulega.

En þökk til Bödda hjá Hafnarfjarðarbæ - hann brást hratt og vel við.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband